Sandur í gangverkinu – upptaka, myndir og glærur

09.11.2021

Vandamál í alþjóðlegu aðfangakeðjunni með seinkunum, hækkandi flutningskostnaði og jafnvel skorti á vörum munu valda þrýstingi á verðlag en þó tímabundið, að mati frummælenda á fundi FA og millilandaviðskiptaráða félagsins, „Sandur í gangverkinu“ sem haldinn var í morgun. Fundurinn var vel sóttur á Icelandair Hótel Reykjavík Natura og enn betur á netinu, þar sem um 200 manns í einu fylgdust með honum. Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar DB Schenker á Íslandi, og Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, fóru yfir þau vandkvæði sem sett hafa mark sitt á alþjóðlegu flutningakeðjuna undanfarið með tilheyrandi verðhækkunum. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, útskýrði að hið alþjóðlega framleiðslukerfi hefði aldrei framleitt meira, en skyndileg aukning í eftirspurn þýddi að kerfið hefði ekki við. Frummælendur voru sammála um að vandinn væri tímabundinn. Daníel spáði því að ástandið yrði eðlilegra um mitt næsta ár, vegna þess að þá hefði fólk klárað uppsafnaðan sparnað sem það hefði notað í neyslu, eftirspurn eftir neysluvörum á borð við raftæki og húsbúnað myndi mettast og eftirspurn hliðrast úr vörum yfir í þjónustu eins og veitingar, skemmtanir og ferðalög.

Í pallborðsumræðum tóku þátt Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingar og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri SRX og Ormsson, auk frummælendanna þriggja. Þar kom fram það sjónarmið að hækkanir á flutningskostnaði á heimsvísu væru þegar komnar inn í vöruverð hér á landi. Fyrirtæki hefðu mörg hver sýnt ábyrgð og forðast að velta hækkunum á vöruverði frá birgjum út í verðlagið af fullum krafti, þótt sennilegt væri að þrýstingur yrði á verðlag á næstunni. Þá væri líklegt að þróun gengis krónunnar myndi vinna að einhverju leyti gegn hækkunum á innlendri vöru.

Fyrirtækin og stjórnvöld reyni að halda aftur af verðhækkunum
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA var fundarstjóri og sagði í inngangsorðum sínum að þótt til umfjöllunar væru hækkanir á flutningskostnaði, hrávöruverði, umbúðum og fleiru sem skapaði áskoranir fyrir fyrirtækin, ætti enginn að lesa þannig í það að FA eða viðskiptaráðin teldu verðhækkanir óhjákvæmilegar eða sjálfsagðar. „Það ríkir auðvitað hörð samkeppni í innflutningi og sá sem getur vegið upp kostnaðaraukann í innkaupum á vöru með hagræðingu annars staðar í rekstrinum skapar sér samkeppnisforskot. Við höfum líka minnt okkar félagsmenn á að á viðkvæmum vinnumarkaði, þar sem hefur náðst mikill árangur í að auka kaupmátt, er full ástæða fyrir fyrirtækin að staldra við áður en þau velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið,“ sagði Ólafur.

Hann sagði að velta mætti fyrir sér hlutverki stjórnvalda á tímum sem þessum – FA hefði t.d. gagnrýnt harðlega að á sama tíma og verðbólga fer vaxandi skyldu stjórnvöld hafa tekið meðvitaðar ákvarðanir beinlínis í þeim tilgangi að hækka vöruverð og um leið látið hjá líða að létta af fyrirtækjum álögum, sem gæti stuðlað að því að lækka vöruverð. „Að okkar mati ættu stjórnvöld við þessar aðstæður að gera sitt til að hjálpa fyrirtækjum að komast hjá verðhækkunum og lækkun tolla og annarra álagna á fyrirtækin ætti alveg tvímælalaust að vera þar ofarlega á blaði,“ sagði Ólafur.

Glærur Valdimars
Glærur Gunnars Más
Glærur Daníels

Viðtal Hringbrautar við Ólaf Stephensen og Daníel Svavarsson
Viðtal RÚV við Valdimar Óskarsson
Viðtal RÚV við Ólaf Johnson

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning