Sérhagsmunahópar panta undanþágur frá samkeppnislögum

18.05.2021

Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu umsögn um drög að tveimur frumvörpum um undanþágur framleiðenda og afurðastöðva í landbúnaði frá samkeppnislögum. FA leggst eindregið gegn því að lögð verði fram stjórnarfrumvörp um slíkar undanþágur og telur ekkert í núverandi lagaumhverfi standa í vegi fyrir því að ná megi fram með lögmætum hætti hagkvæmni og skilvirkni í búvöruframleiðslu, rétt eins og öðrum atvinnugreinum.

Ítrekaðar beiðnir frá hagsmunasamtökum
Frumvörpin voru samin í ráðuneytinu eftir margítrekaðar beiðnir frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands og Landssamtökum sláturafurðastöðva, með vísan til „óviðunandi stöðu bænda og afurðastöðva“ og óskuðu samtökin eftir að leitað yrði leiða til að auka möguleika til samruna, aukins samstarfs og verkaskiptingar í kjötafurðavinnslu. Í framhaldinu pantaði ráðuneytið skýrslu frá Deloitte um mögulega hagræðingu með samstarfi og/eða sameiningu sláturhúsa og kjötvinnslna, samdi drög að frumvarpi um undanþágur framleiðendafélaga frá ákvæðum samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði og útbjó loks drög að frumvarpi um undanþágu sláturleyfishafa og kjötvinnslna frá samkeppnislögum vegna útflutnings á kindakjöti.

„Að mati FA er ótækt ef sérhagsmunahópar geta með þessum hætti pantað undanþágur frá samkeppnislögum af því að þeir telji rekstur í tilteknum greinum ekki ganga nógu vel. Að sama skapi telur FA það ámælisvert að stjórnvöld skuli vera svo tilbúin að bregðast við slíkum óskum með frumvarpssmíð og að greiða dýra sérfræðivinnu með fé skattgreiðenda. Nær hefði verið að sérhagsmunahóparnir, sem skrifaðir voru fyrir erindunum til ríkisstjórnarinnar, hefðu greitt þá vinnu sjálfir,“ segir í umsögn FA.

Skortur á gagnsæi við samráð
FA gagnrýnir einnig að samráð um frumvarpsdrögin fari ekki fram á samráðsgátt stjórnvalda, en ráðuneytið óskaði eftir umsögnum í tölvupósti. „Með því að mál þetta fari ekki til samráðs með venjulegum hætti í samráðsgáttinni verða umsagnir hagsmunaaðila ekki opinberar,“ segir í umsögn FA. „FA mun birta umsögn þessa opinberlega og skorar á ráðuneytið að birta opinberlega í þágu gagnsæis bæði umsagnir annarra hagsmunaaðila sem berast um málið, svo og erindi þau frá áðurgreindum hagsmunasamtökum sem urðu grundvöllur þessarar vinnu.“

Nægar heimildir í núgildandi samkeppnislögum
FA bendir á að í núgildandi samkeppnislögum er heimild til að veita undanþágu fyrir margvíslegu samstarfi og samruna. Í 15. grein samkeppnislaga er kveðið á um skilyrðin fyrir slíku samstarfi, en á meðal þeirra er að sýnt sé fram á að neytendum sé veitt sanngjörn hlutdeild í ávinningnum sem af samstarfinu hlýst og að umræddum fyrirtækjum sé ekki veitt færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta þeirrar vöru eða þjónustu sem um er að ræða.

„Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágur fyrir samninga sem uppfylla þessi skilyrði. Það að hagsmunahópar telji nauðsynlegt að löggjafinn veiti þeim undanþágur frá 10. og 12. gr. samkeppnislaganna sem ganga lengra en þessi núgildandi ákvæði, bendir til að þeir treysti sér ekki til að rökstyðja að samstarfið uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögunum, til dæmis um ávinning neytenda. Það bendir jafnframt sterklega til að engin ástæða sé til að láta undan þessum sérhagsmunaþrýstingi,“ segir í umsögn FA.

Félagið bendir jafnframt á nýlegt dæmi um að samkeppnisyfirvöld hafi heimilað samruna fyrirtækja á búvörumarkaði, þ.e. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 12/2021 sem heimilar samruna kjötafurðastöðvanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða með skilyrðum, sem tryggja eiga hag bæði bænda og neytenda. Möguleikar til hagræðingar á þessum markaði, innan ramma núgildandi samkeppnislöggjafar, eru því augljóslega fyrir hendi.

Beðið um heimild til framboðsstýringar á kindakjöti
Í umfjöllun sinni um frumvarpið sem á að heimila útflytjendum kindakjöts undanþágu til samstarfs, bendir FA á að ákvæði frumvarpsins feli í raun í sér framboðsstýringu á innanlandsmarkaði af hálfu kindakjötsframleiðenda, í þeim tilgangi að halda verði uppi. „Slíkt er jafnt innlendri verzlun og neytendum til tjóns. Beiðni hagsmunahópa um leið framhjá 15. grein samkeppnislaganna er, líkt og í tilviki fyrra frumvarpsins, vísbending um að þeir treysti sér ekki til að rökstyðja að neytendur muni njóta góðs af samstarfinu,“ segir í umsögn FA.

Nær að hvetja til meiri samkeppni
FA leggst eindregið gegn því að frumvarpsdrögin tvenn verði að þingskjölum. Félagið telur alveg óútskýrt hvað það sé í núverandi lagaumhverfi sem standi í vegi fyrir  því að ná megi með lögmætum hætti fram hagkvæmni og skilvirkni í búvöruframleiðslu rétt eins og öðrum atvinnugreinum. „Að mati félagsins ætti ráðuneytið að huga að því að hvetja til meiri samkeppni í íslenzkum landbúnaði þannig að virkja megi betur frumkvöðlakraft bænda og annarra atvinnurekenda í greininni. Ráðuneytið ætti hins vegar að hætta snarlega að sinna ítrekuðum beiðnum sérhagsmunahópa um undanþágur frá reglum, sem hugsaðar eru til að setja öllu atvinnulífi á Íslandi skýran og sanngjarnan ramma,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um frumvarpsdrögin

Nýjar fréttir

Innskráning