Sjálfstæð kæruheimild í útboðsmálum styrkir FA í baráttunni

18.10.2016

IMG_6490Félag atvinnurekenda fagnar þeirri breytingu, sem gerð var nýlega á lögum um opinber innkaup, að félög eða samtök fyrirtækja geti skotið málum til kærunefndar útboðsmála, enda samræmist það tilgangi þeirra að gæta slíkra hagsmuna. „Sjálfstæð kæruheimild af þessu tagi mun styrkja FA í baráttunni fyrir hagsmunum félagsmanna sinna og mun efla eftirlit og aðhald með opinberum innkaupum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Er frumvarp til breytinga á lögum um opinber innkaup var til meðferðar á Alþingi lagði FA til í umsögn sinni að ákvæði sem gerir atvinnuvegasamtökum á borð við FA kleift að kæra framkvæmd útboða yrði bætt inn í lögin. Þetta væri nauðsynlegt vegna þess að einstök fyrirtæki treystu sér oft ekki til að kæra brot á lögunum.

Nýtt og öflugt tæki
„Í framkvæmd er það svo að fyrirtæki veigra sér við að kæra brot á lögum um opinber innkaup þar sem þau óttast mögulegar afleiðingar slíkrar kæru, þ.e. að viðkomandi fyrirtæki fái ekki samning í þeim opinberu útboðum sem á eftir fara,“ sagði í umsögn FA. Þar var vitnað til ummæla forstjóra Ríkiskaupa í Kastljósi, um að fyrirtæki þyrðu ekki að koma fram opinberlega og kæra útboð. „Mikilvægt er að vinna bug á þessu meini og tryggja að eftirlit með framkvæmd laganna sé virkt og skili árangri. Sjálfstæð heimild samtaka og félaga til að kæra ætlað brot væri þar öflugt tæki,“ sagði í umsögninni. Þar var ennfremur vísað til fyrirmyndar að lagaákvæði af þessu tagi í dönskum lögum um framkvæmd útboðsreglna.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Skúli Magnússon voru meðal frummælenda á vel sóttum fundi FA um útboðsmál.
Frá fundi FA um útboðsmál fyrr á árinu, þar sem tillögur félagsins um sjálfstæða kæruheimild voru m.a. kynntar.

Fjárlaganefnd Alþingis tók mark á þessari tillögu og gerði að sinni. FA hefur iðulega veitt aðildarfyrirtækjum sínum liðsinni í útboðsmálum og hefur nú fengið nýtt og öflugt tæki í þeirri baráttu.

Breytingar í takt við tillögur FA
Ýmsar fleiri breytingar urðu á lögunum um opinber útboð með samþykkt ofangreinds frumvarps, margar þeirra jákvæðar og í takt við það sem FA hefur barist fyrir undanfarin ár undir merkjum Falda aflsins. Þar má nefna eftirfarandi:

  • Lögin ná nú yfir innkaup sveitarfélaga ekki síður en ríkisins. Öll innkaup bæði ríkis og sveitarfélaga á vörum og þjónustu yfir 15,5 milljónum króna og framkvæmdir yfir 49 milljónum skal bjóða út.
  • Öll samskipti og miðlun upplýsinga skulu vera rafræn. Framegis skulu allir opinberir kaupendur auglýsa innkaup sín á utbodsvefur.is. Með þessu er stuðlað að auknu jafnræði og gagnsæi.
  • Nýtt ákvæði um hæfisyfirlýsingu bjóðanda auðveldar fyrirtækjum, sérstaklega þeim minni, að taka þátt í opinberum innkaupum. Fyrirtæki þurfa þá ekki að útvega fjölda vottorða og annarra skjala sem tengjast útboði strax við upphaf innkaupaferlis.
  • Minni og meðalstórum fyrirtækjum er auðveldað að taka þátt í opinberum innkaupum með nýju ákvæði um skiptingu samninga í hluta. Það á að hvetja kaupendur til að skipta upp stórum samningum þannig að þeir heti betur getu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Nánari lýsingu á nýmælum í lögunum má lesa í samantekt lögfræðiþjónustu FA hér að neðan.

Samantekt um helstu breytingar á lögum um opinber innkaup, október 2016

 

Nýjar fréttir

Innskráning