Skattgreiðendur fjármagni tap á Kínasendingum

30.11.2018

Ekki verður annað séð en að Íslandspóstur hefði getað innheimt hærri umsýslugjöld vegna póstsendinga frá Kína og þannig afstýrt því tapi, sem skattgreiðendur eru nú beðnir um að fjármagna. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Félags atvinnurekenda um frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til nýrra póstlaga, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

„Rekstrarvandi Íslandspósts er ekki eingöngu til kominn vegna fækkunar bréfa og pakkasendinga frá Kína, eins og látið er í skína í greinargerð frumvarpsins. Afkoma af bréfasendingum í einkarétti hefur verið ágæt undanfarin ár og árin 2016 og 2017 raunar umfram ákvæði póstlaga um raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þannig er mat Póst- og fjarskiptastofnunar að árið 2016 hafi umframhagnaðurinn verið 16%,“ segir í umsögn FA.

Bent er á að hvað Kínasendingarnar varðar, sé tap vegna þeirra einungis hluti af tapinu á samkeppnisrekstri Íslandspósts innan alþjónustu. „Að mati Félags atvinnurekenda hefur ekkert staðið í vegi fyrir því að fyrirtækið innheimti hærra umsýslugjald af móttakendum sendinga, með svipuðum hætti og póstfyrirtæki í t.d. Svíþjóð og Noregi, til að standa undir kostnaði við dreifingu pakka frá Kína og öðrum þróunarríkjum. Á Íslandi nemur þetta umsýslugjald nú yfirleitt 595 krónum. Í Svíþjóð er það 1.050 krónur og 2.370 krónur í Noregi, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 28. nóvember 2018. Í sama fréttatíma sagði forstjóri Íslandspósts að fyrirtækið hefði ekki viljað fara þá leið að hækka umsýslugjaldið. Vandséð er hvernig það samræmist ákvæðum núgildandi laga um að gjaldskrár innan alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði,“ segir FA.

Stjórnendur bera sjálfir ábyrgð
Í 17. grein frumvarpsins er hnykkt á því að gjaldskrár vegna pakkasendinga frá útlöndum skuli taka mið af raunkostnaði, en eins og áður segir er ekki hægt að sjá að núgildandi löggjöf hafi með neinum hætti útilokað slíkt. „Sú spurning vaknar því óneitanlega hvort stjórnendur Íslandspósts beri ekki sjálfir ábyrgð á því tapi, sem verið hefur á Kínasendingunum og skattgreiðendur eru nú beðnir að fjármagna. Þannig er í rauninni verið að dreifa kostnaði fyrirtækisins af Kínasendingum til allra skattgreiðenda, í stað þess að þeir sem nota þjónustuna beri hann eins og eðlilegt verður að teljast,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um póstfrumvarpið

Nýjar fréttir

Innskráning