
Mikil skriffinnska og umstang við að fá vegabréfsáritun til Íslands, eins og annarra aðildarlanda Schengen-samkomulagsins, er hindrun í vegi kínverskra ferðamanna sem vilja sækja Ísland heim. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fjölsóttri málstofu Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins (ÍKV) og Íslandsstofu á Hótel Hilton Reykjavík Nordica í morgun.
Yfirskrift málstofunnar var „Kínverskir ferðamenn á Íslandi – áskoranir og tækifæri“. Frummælendur voru Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, Ársæll Harðarson, formaður ÍKV og svæðisstjóri hjá Icelandair, Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður viðskiptasendinefnda hjá Íslandsstofu og Mikko Rautio, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Finnair.
Í máli Þorleifs kom fram að flókið væri fyrir Kínverja að sækja um vegabréfsáritun til Íslands og annarra ríkja Schengen-svæðisins. Fjórðungur þeirra sem ætluðu til Evrópuríkja hætti við af þessum sökum. „Þetta er raunveruleg aðgangshindrun,“ sagði Þorleifur.
Ársæll benti á að kínverskum ferðamönnum hefði snarfjölgað í Bandaríkjunum eftir að þarlend stjórnvöld breyttu reglum um vegabréfsáritanir og hófu að bjóða Kínverjum áritun sem gildir til allt að tíu ára. Mikko Rautio tók undir að vegabréfareglurnar væru vandamál; Kínverjar þyrftu að skila vottorðum með umsókn sinni sem væri alltof dýrt og flókið að útvega.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og ÍKV var fundarstjóri á málstofunni, sem var vel sótt, einkum af fólki úr ferðaþjónustunni.