Smásala áfengis: FA hvetur til þess að skrefið verði stigið til fulls

23.03.2022

Félag atvinnurekenda telur þá breytingu á áfengislögum sem lögð er til í frumvarpi nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að heimila innlenda netverslun með áfengi, skref í rétta átt en þó of stutt skref. 

Yrði frumvarpið að lögum, lægi fyrir að innlend vefverslun væri heimil og óþarfi væri fyrir innlenda aðila að stofna félög erlendis til að reyna að fara framhjá einkarétti ÁTVR á smásölu áfengis á Íslandi. Líkt og flutningsmenn frumvarpsins benda á í greinargerð, myndi slíkt jafna stöðu innlendra og erlendra netverslana, en íslenskir neytendur hafa um árabil getað keypt áfengi af erlendum aðilum, á netinu eða í gegnum pöntunarþjónustu. „Að því leyti væri samþykkt frumvarpsins skref í þá átt að eyða skaðlegri óvissu á áfengismarkaðnum,“ segir í umsögn FA. „Líkt og FA hefur margoft rökstutt, er skrefið hins vegar alltof stutt.“

Mun hafa mikil áhrif á markaðinn
FA vísar til þess sem segir í greinargerð frumvarpsins um að það hrófli ekki við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. „Það er augljóslega rangt, eins og flutningsmenn hljóta raunar að átta sig á. Samþykkt frumvarpsins mun hafa mikil áhrif á ÁTVR og auðvelt er að færa rök fyrir því að fremur eigi að stíga skrefið til fulls, leggja ríkisverzlun með áfengi niður og heimila einkaaðilum almenna smásölu, að uppfylltum skilyrðum,“ segir í umsögn FA.

Þar er m.a. bent á eftirfarandi áhrif frumvarpsins: 

Í fyrsta lagi mun það draga stórlega úr viðskiptum við ÁTVR að heimila innlenda netverslun með áfengi, af ástæðum sem flutningsmenn benda sjálfir á í greinargerð frumvarpsins; netverslun eykur val neytenda og sparar tíma þeirra. Það liggur algjörlega í augum uppi hver þróunin verður og ekkert nema gott um það að segja. Líklegt verður að teljast, af þessum sökum, að rekstrargrundvöllur ÁTVR væri fljótlega horfinn.

Í öðru lagi liggur fyrir að stærstu matvöruverslanakeðjur landsins hyggjast setja á fót netverslanir, verði þeim það heimilt að lögum. Það mun valda mikilli byltingu í verslunarháttum með áfengi; ætla má að stór hluti neytenda velji þann kost að panta áfengi á netinu og sækja það svo í næstu ferð í stórmarkaðinn, enda mun þægilegra en að gera sér aukaferð í Vínbúðina. Þetta væri að sjálfsögðu jákvæð þróun og FA er ekki ljóst af hverju flutningsmenn frumvarpsins láta eins og þeir sjái hana ekki fyrir.Í þriðja lagi myndi þessi þróun hafa í för með sér að stóru matvöruverslanakeðjurnar fengju samkeppnisforskot á netverslanir sem ekki gætu boðið neytendum upp á að sækja áfengi í sömu ferð og aðrar nauðsynjar eru keyptar til heimilisins. Það á alveg sérstaklega við ef engar breytingar verða gerðar á gildandi banni við áfengisauglýsingum og keppinautum stórmarkaðanna verður þannig óheimilt að auglýsa vörur sínar. Í greinargerð frumvarpsins er vikið að hluta af því ójafnræði sem auglýsingabannið býr til, en í þingskjalinu er ekki að finna tillögu um breytingar á því.

Vond hugmynd að reka ÁTVR áfram
Í fjórða lagi myndi samþykkt þeirrar breytingar, sem frumvarpið felur í sér, þýða að ÁTVR væri komin í samkeppni við einkafyrirtæki á sviði netverslunar en hefði (a.m.k. að nafninu til) einkarétt á hefðbundinni smásölu áfengis. Þar með væri orðinn til einkaréttar- og samkeppnishluti innan ríkisstofnunarinnar. Greinargerðin ber vott um að flutningsmenn frumvarpsins átti sig á þessu, en þeir gera þó enga tillögu um hvaða reglur ætti að setja um tengsl einkaréttar- og samkeppnishluta ÁTVR eða hvaða hömlur ætti að setja ríkisfyrirtækinu í samkeppni við einkaaðila. Reynslan sýnir að það er almennt vond hugmynd að ríkisfyrirtæki séu í samkeppni við einkafyrirtæki. Reynslan af t.d. rekstri Íslandspósts sýnir mætavel að það er ennþá verri hugmynd að ríkisfyrirtæki hafi einkarétt á tiltekinni starfsemi en sé í samkeppni við einkaaðila í hluta rekstrarins.

Réttast að stíga skrefið til fulls
„Allt ber þetta að sama brunni; réttast er að stíga skrefið til fulls, leyfa einkaaðilum smásölu áfengis og leggja ÁTVR niður, um leið og áfengisauglýsingar yrðu heimilaðar,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA í heild

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning