Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda fór á opnum fundi félagsins á miðvikudag yfir stöðuna á Falda aflinu, tólf tillögum sem FA setti fram í september 2013 með það að markmiði að bæta efnahags- og rekstarumhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi.
Í erindi Ólafs kom fram að öll málin séu á hreyfingu og þokist áfram, þar með talin þrjú mál sem ekkert var að gerast í fyrir ári. Þrjú önnur mál eru í höfn. Þar stendur afnám vörugjaldsins upp úr á árinu 2014, en einnig hefur náðst í gegn að fjölga gjalddögum aðflutningsgjalda í tolli og afnema ósanngjarna 50/20% reglu um skattlagningu arðs.
Í stað þessara þriggja mála hefur þremur nýjum tillögum verið bætt við Falda aflið; um eðlilega verðmyndun í sjávarútvegi, afnám verndartolla í landbúnaði og einföldun álagningar virðisaukaskatts. Þetta eru mál sem FA hefur beitt sér í og mun leggja enn ríkari áherslu á nú þegar nýtt starfsár fer í hönd.