Stjórn ÍEV: Stjórnvöld klári þriðja orkupakkann og lagabreytingar vegna innflutnings á ferskvöru

26.11.2018

Stjórn Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag:

„Stjórn Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins hvetur stjórnvöld til að ljúka sem fyrst lagabreytingum til að bregðast við dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins, þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk brjóti í bága við EES-samninginn. Stjórnin lýsir furðu á yfirlýsingum stjórnmálamanna, innan og utan ríkisstjórnar, um að ekki beri að fara að dómi æðsta dómstóls landsins, eða standa við gerða samninga íslenska ríkisins. Slíkt brýtur freklega gegn réttaröryggi fyrirtækja og borgara.

Þá hvetur stjórnin stjórnvöld til að ljúka sem fyrst lagasetningu vegna innleiðingar þriðja orkupakka Evrópusambandsins í EES-samninginn, sem Ísland hefur einnig samið um nú þegar. Stjórn ÍEV harmar þær röngu upplýsingar sem haldið er að almenningi um áhrif orkupakkans og ítrekar að ákvæði hans fela hvorki í sér valdaframsal til Evrópusambandsins, afsal forræðis yfir orkuauðlindunum né skyldu til að leggja sæstreng til Íslands.

Stjórn Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins ítrekar að það eru gífurlegir hagsmunir íslensks atvinnulífs að rekstur EES-samningsins gangi sem greiðast fyrir sig og allir aðilar séu reiðubúnir að fara að gerðum samningum og alþjóðlegum skuldbindingum sínum. Stjórnmálamenn, sem telja að Ísland geti brotið gerða samninga án þess að það hafi afleiðingar, stefna trúverðugleika Íslands og hagsmunum atvinnulífs og almennings í tvísýnu.“

Um Íslensk-evrópska viðskiptaráðið:
ÍEV er hýst og rekið af Félagi atvinnurekenda. Ráðið var stofnað í maí 2018 og er tilgangur þess að efla verslunar- og viðskiptasambönd milli Íslands og Evrópusambandsins. Á þriðja tug fyrirtækja tók þátt í stofnun ráðsins. „Sérstakt viðfangsefni ráðsins er að beita sér fyrir því að rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi sem best og að allir aðilar samningsins standi við skuldbindingar sínar samkvæmt honum. Jafnframt er það hlutverk ráðsins að stuðla að því að viðskipti samkvæmt tvíhliða samningum Íslands og ESB gangi sem greiðast fyrir sig,“ segir í stofnsamþykktum ÍEV.

Upplýsingar um Íslensk-evrópska viðskiptaráðið

Nýjar fréttir

Innskráning