Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, 14. október 2020.
Í upphafi kórónaveirukreppunnar stóðu vonir til þess að fjármálakerfi landsins myndi standa þétt við bakið á fyrirtækjum sem hafa tapað stórum hluta tekna sinna vegna heimsfaraldursins og stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða til að gera fjármálastofnunum það kleift.
Ríkar skyldur fjármálakerfisins
Á félagsfundi Félags atvinnurekenda í maí var Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra spurður hvernig mætti mæta vanda fyrirtækja sem féllu rétt utan skilyrða fyrir þátttöku í úrræðum stjórnvalda á borð við stuðning á uppsagnarfresti. Fjármálaráðherrann svaraði því til að við slíkar aðstæður bæri fjármálakerfið „ríkar skyldur“ og lánaúrræði með ríkisábyrgð ættu að tryggja fyrirtækjum lægstu mögulegu vexti. Þar er annars vegar um að ræða brúarlánin svokölluðu með ríkisábyrgð að hluta og hins vegar stuðningslán með fullri ríkisábyrgð á fyrstu tíu milljónunum.
Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti niður í sögulegt lágmark og auk þess gripið til ýmissa úrræða sem áttu að greiða fyrir útlánum bankanna til fyrirtækja, til dæmis lækkað bindiskyldu og breytt henni til að rýmka lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja, slakað á eiginfjárkröfum, hætt að bjóða 30 daga bundin innlán í Seðlabankanum og veitt tímabundna lausafjárfyrirgreiðslu í formi veðlána.
Margir atvinnurekendur upplifa það hins vegar sem svo að fjármálakerfið standi ekki með þeim á þessum erfiðu tímum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hafa að sumu leyti ekki skilað sér sem skyldi.
Brúarlánin eru misheppnuð aðgerð
Enn sem komið er hefur aðeins frétzt af því að eitt brúarlán hafi verið veitt. Ríkið ábyrgist 70% af brúarlánunum og bankarnir virðast mjög tregir að taka þá áhættu sem felst í þeirra 30%. Í lok ágúst gagnrýndi Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að hluti bankans af eina brúarláninu sem veitt hefur verið, láni Arion banka til Icelandair Hotels, bæri 25% vexti. Brúarlánin eru augljóslega misheppnuð aðgerð sem stjórnvöld þurfa að hugsa upp á nýtt.
Stuðningslánin, sem byrjað var að veita í júlí, hafa reynzt betur. Í lok september hafði verið veitt 651 stuðningslán til fyrirtækja, samtals að upphæð um 4,5 milljarðar króna.
Fyrirtæki í greiðsluhléi voru tæplega 1.800 þegar mest var í lok júlí, en hafði fækkað um helming, eða niður í rúmlega 900, um síðustu mánaðamót. Nú þegar ný bylgja faraldursins ríður yfir með lokunum og fallandi eftirspurn er hætt við að fyrirtækjum í greiðsluhléi fjölgi á ný.
Vaxtaálagið fylgir ekki stýrivöxtunum
Vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalánum rauk upp á síðasta ári, þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans. Þótti mörgum sem kröfur Fjármálaeftirlitsins ynnu þá á móti vaxtalækkunum bankans, en nú hafa þessar stofnanir runnið saman og stjórntækin ættu að vinna saman. Þótt bankinn hafi haldið vaxtalækkunum áfram á þessu ári og stýrivextir hafi aldrei verið lægri hefur vaxtaálagið áfram hækkað. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri mat það þó svo á félagsfundi FA í síðasta mánuði að álagið hefði náð hámarki. Seðlabankinn lítur augljóslega svo á að vaxtalækkanir hans hafi ekki skilað sér sem skyldi til fyrirtækja; þannig hefur seðlabankastjóri ítrekað látið hafa eftir sér að vaxtastefnan hafi síður miðlazt til fyrirtækja en heimila.
Meiri upp- og umframgreiðslur en ný lán
Þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans til að rýmka um lausafé bankanna hafa mörg fyrirtæki haft síðri aðgang að fyrirgreiðslu hjá bönkunum en þau höfðu fyrir ári, jafnvel þótt þau séu í ágætum rekstri.
Í síðustu þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var í byrjun mánaðarins, kemur fram að aðgerðir stjórnvalda hafi enn sem komið er einungis stutt lítillega við vöxt útlána til fyrirtækja. Í fyrsta sinn um árabil eru upp- og umframgreiðslur fyrirtækja á lánum sínum hærri tala en nýjar lánveitingar bankanna til fyrirtækja. Munurinn er nánar til tekið rúmlega tveir milljarðar króna eins og staðan var í lok júlí.
Stjórnvöld gangi í takt
Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hljóta í sameiningu að skoða hvernig megi auðvelda fjármálakerfinu enn frekar að uppfylla þá skyldu sína að styðja við fyrirtækin í kórónaveirukreppunni. Varaseðlabankastjóri nefndi á áðurnefndum fundi FA ónotað tæki í verkfærakistu bankans, sem væru veðlán með útlánahvata, en í þeim fælist að lánastofnanir fengju lán með hagstæðari vöxtum ef þær lánuðu til fyrirtækja. Það hlýtur sömuleiðis að koma til skoðunar að Seðlabankinn setji meiri kraft í uppkaup á ríkisskuldabréfum til að stuðla að lækkun vaxta á langtímaskuldbindingum. Skoða þarf betur samspil hinna ýmsu stjórntækja Seðlabankans. Ríkisstjórnin þarf að endurskoða sín úrræði til að styðja við útlán bankanna til fyrirtækja.