Tafir á útboði flugmiðakaupa ríkisins

13.11.2014

Ríkiskaup hafa svarað fyrirspurn Félags atvinnurekenda um hvað líði útboði á flugmiðakaupum ríkisins. Ríkiskaup sögðu upp í september 2012 rammasamningi við Icelandair og Iceland Express um flugfargjöld, sem veitti ríkinu umtalsverða afslætti. Var það gert í kjölfar úrskurðar kærunefndar útboðsmála þess efnis að Ríkiskaupum hefði verið óheimilt taka tilboði Icelandair þar sem að það hefði verið óréttlætanlega hátt og langt frá því að vera hagkvæmt fyrir íslenska ríkið. Í stað þess að halda áfram samningnum og eiga viðskipti við þann aðila sem hafði skilað inn hagkvæmasta tilboði var honum sagt upp án þess að annar samningur væri til staðar um þessi útboðsskyldu innkaup. Var því í raun komið á ólögmætu ástandi að mati FA þar sem að þessi viðskipti ríkisins fara fram án þess að þau sé boðin út. Á sama tímapunkti lýstu Ríkiskaup því jafnframt yfir að höfðað yrði dómsmál til að fá umræddan úrskurð kærunefndar útboðsmála um innkaupin ógiltan og farið yrði í nýtt útboð. Hvorugt var gert.

 

Í svari Ríkiskaupa segir að frá því í árslok 2012 hafi verið kannað með hléum hvernig hagkvæmast væri að kaupa þjónustuna. Verkið hafi reynst tímafrekt og tafsamt af ýmsum ástæðum, enda þurfi að taka tillit til margra sjónarmiða. Úr bréfinu má lesa að innan stjórnsýslunnar sé það sjónarmið meðal annars uppi að hugsanlega þurfi ekki að bjóða farmiðakaupin út „þar sem innkaup flestra opinberra stofnana væru undir viðmiðunarmörkum og þá væri ekki skyt að bjóða þjónustuna út, heldur nægilegt að stofnanir leituðu hagkvæmasta verðs í samræmi við 22. gr. laga um opinber innkaup.“

 

Félag atvinnurekenda þakkar fyrir svarið en telur nauðsynlegt að minna á að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 2012 stendur enn óhaggaður, þar sem Ríkiskaup hafa aldrei höfðað mál til að fá honum hnekkt. Þá eru 26 mánuðir drjúgur tími til að leysa úr því verkefni hvernig megi bjóða út flugfarmiðakaup ríkisins, jafnvel þótt verkefnið þyki flókið. Enginn vafi leikur á að spara mætti skattgreiðendum umtalsverðar fjárhæðir með útboði á þessum stóra útgjaldalið ríkisins. Slíkt ætti að vera forgangsverkefni á aðhaldstímum í ríkisrekstrinum. Rétt er einnig að hafa í huga að meirihluta þess fjár sem varið er í farmiðakaup íslenska ríkisins er varið í ferðir á milli Keflavíkurflugvallar og helstu áfangastaða í Evrópu, helst Kaupmannahafnar og London. Gera verður ráð fyrir að einfalt mál sé að bjóða út þann hluta innkaupanna án mikils tilkostnaðar eða fyrirhafnar. Í því samhengi má benda á að flest stærri fyrirtæki eru með innkaupasamninga við flugfélög og þykir það ekki tiltökumál.

 

Bréf Ríkiskaupa til FA

Nýjar fréttir

Innskráning