Það sem fer ekki í launaumslagið

05.09.2019

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 5. september 2019. 

Hátt hlutfall launakostnaðar skerðir samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, um það þarf varla að deila. Í úttekt Fréttablaðsins í fyrra kom fram að launakostnaður væri um 32% af tekjum hjá Icelandair, samanborið við 22% og 21% hjá keppinautunum í SAS og British Airways. Í veitingageiranum, sem stendur mjög höllum fæti þessa dagana, eru dæmi um að yfir 50% af tekjum fari í laun.

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á morgunverðarfundi Félags atvinnurekenda í gær að þótt kjarasamningar í vor hefðu verið hóflegir og skynsamlegir miðað við upphaflegar kröfur verkalýðshreyfingarinnar, væri ekki hægt að horfa framhjá því að launahækkanir væru „mjög ríflegar“ og meiri en í samkeppnislöndunum, sem skerti samkeppnisstöðu íslenzks atvinnulífs.

Þetta er umhugsunarefni til framtíðar, og ekki síður sú staðreynd að æ stærri hluti launakostnaðar eru alls kyns gjöld, sem ekki enda í launaumslagi starfsmannanna, til dæmis tryggingagjald, gjald í ábyrgðarsjóð launa, markaðsgjald, atvinnutryggingagjald, framlög í lífeyrissjóði og greiðslur í margvíslega sjóði stéttarfélaga. FA gaf í sumar út skýrslu Intellecon, sem sýnir fram á að frá aldamótum hefur launatengdur kostnaður íslenzkra fyrirtækja hækkað úr 13,48% í 21,8%, eða um 60%.

Fyrir hverjar hundrað krónur sem samið er um í launahækkun bætast þannig 22 til viðbótar við launakostnað fyrirtækja. Bilið á milli raunverulegs launakostnaðar og þess sem starfsmenn fá í vasann fer sífellt breikkandi.

Þessi þróun kemur niður á hvata fyrirtækja til að bæta við sig fólki, ýtir undir útvistun verkefna til ríkja þar sem launakostnaður er lægri og skapar freistingu til gerviverktöku. Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og stéttarfélaga að koma böndum á sífelldar hækkanir á launatengdum kostnaði. Fyrst á dagskrá ætti að vera tryggingagjaldið, sem þrátt fyrir ítrekuð fyrirheit stjórnmálamanna hefur ekki verið lækkað niður í það sem það var fyrir hrun.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning