Þingnefndin lætur undan þrýstingi – þingmaður flytur tillögu um afnám snakktolls í eigin nafni

16.12.2015

IMG_5855Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur dregið til baka breytingartillögu sína við frumvarp um ýmsar forsendur fjárlaga, þess efnis að 59% tollur á innflutt kartöflusnakk verði felldur niður. Þetta er gert vegna þrýstings frá innlendum snakkframleiðendum, en Samtök iðnaðarins hafa til dæmis mótmælt afnámi tollsins.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, hefur hins vegar lagt tillöguna fram í eigin nafni, þó með þeirri breytingu að snakktollurinn verði ekki afnuminn um áramót, heldur á miðju ári 2016.

Félag atvinnurekenda harmar að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni skuli guggna á því að leggja til að þessi verndartollur fyrir innlenda iðnaðarframleiðslu sé afnuminn. Jafnframt hvetur félagið þingmenn til að samþykkja tillögu Sigríðar Andersen.

„Verndartollar fyrir iðnað áttu að heyra sögunni til fyrir löngu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Ofurtollur á kartöflusnakk hefur verið réttlættur með því að hann sé hluti af tollvernd fyrir landbúnaðinn. Staðreyndin er hins vegar sú að engar íslenskar kartöflur eru notaðar í framleiðslu tveggja iðnfyrirtækja, sem framleiða snakk. Þau framleiða úr innfluttu hráefni, sem ber litla sem enga tolla. Snakktollurinn er þannig verndartollur fyrir iðnað, dulbúinn sem tollvernd fyrir landbúnað.“

Átta milljónir á starfsmann
Ólafur bendir á að neytendur greiddu á síðasta ári yfir 160 milljónir króna í toll af kartöflusnakki. „Fram hefur komið að 20 manns starfi við snakkframleiðslu á Íslandi. Þetta eru þá átta milljónir á hvert starf. Það væri hagstæðara fyrir neytendur að fá snakkið án tolla og borga þessum tuttugu starfsmönnum meðallaun í landinu fyrir að gera ekki neitt.“

Snakkframleiðendur hafa notað það sem rök að ekki megi afnema tolla á innflutningi til Íslands nema semja um leið um að erlend ríki afnemi sína tolla á hugsanlegum snakkútflutningi frá Íslandi. Ólafur bendir á að langmest sé flutt inn af snakki frá Evrópusambandi. Á tollflokkinum, sem breytingartillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar tók til, sé 59% tollur hér á landi en 14,1% tollur í Evrópusambandinu. „Ef snakkfyrirtækin eru svo illa rekin að þau þurfa næstum því 60% verndartoll til að lifa, eiga þau heldur ekki mikla möguleika í alþjóðlegri samkeppni á snakkmarkaði. Ofurtollar eins og þeir sem eru lagðir á mat á Íslandi tíðkast varla nokkurs staðar í nágrannalöndum okkar. Við hvetjum þingmenn til að samþykkja tillögu Sigríðar Andersen og afnema þennan ósanngjarna toll, neytendum og frjálsri verslun til hagsbóta,“ segir Ólafur.

Lestu meira um fáránlega tolla á mat í skýrslu FA um matartolla

Nýjar fréttir

Innskráning