Þrengt að kjötinnflutningi með frumvarpsdrögum ráðherra

12.08.2019

Félag atvinnurekenda gagnrýnir að þrengt skuli að innflutningi á kjöti með ákvæðum draga að frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um breytingu á úthlutun tollkvóta. Markmið frumvarpsins eru sögð vera þau að stuðla að auknum ábata neytenda og efla samkeppni á markaði fyrir landbúnaðarvörur, en FA dregur í efa að þau markmið náist með þeim tillögum sem er að finna í drögunum.

Tillögunni lætt inn án skýringar
FA bendir þannig á að í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að hætt verði að gefa út svokallaðan opinn tollkvóta eða tímabundinn innflutningskvóta á lægri tollum fyrir nauta-, alifugla- og svínakjöt. Opnir tollkvótar hafa verið gefnir út þegar framboð frá innlendum framleiðendum þessara vara annar ekki eftirspurn. FA gagnrýnir að þessari tillögu sé lætt inn í frumvarpsdrögin án þess að hún sé rökstudd eða skýrð með nokkrum hætti í greinargerð.

„Þótt það sé ekki sagt beinum orðum, virðist ráðuneytið hér vera að hrinda í framkvæmd tillögu starfshóps ríkisins og hagsmunaaðila í innlendum landbúnaði og iðnaði, sem skipaður var í apríl 2016 af þáverandi landbúnaðarráðherra til að „bregðast við“ tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins. FA gagnrýndi harðlega bæði skipan og tillögur starfshópsins, enda fengu hvorki innflytjendur búvara né neytendur neina fulltrúa í honum,“ segir í umsögn FA. „Ein tillaga hópsins var að þeir tollfrjálsu innflutningskvótar, sem samið var um við Evrópusambandið, yrðu nýttir til að bregðast við skorti á kjöti á innanlandsmarkaði. FA ítrekar þá afstöðu, sem félagið setti fram á sínum tíma, að tilgangur tollfrjálsra innflutningskvóta er ekki að bregðast við skorti á innanlandsmarkaði, heldur að auka vöruúrval, efla samkeppni við innlendan landbúnað og lækka verð til neytenda.“

ESB-kvótinn dugir ekki
FA bendir á að undanfarin ár hefur umtalsverður hluti innflutnings á nauta-, svína- og alifuglakjöti verið á opnum tollkvóta vegna þess að innlendir framleiðendur hafa ekki annað eftirspurn. Það heyrir til algjörra undantekninga að kjötvara sé flutt inn á fullum tollum. Jafnvel þótt tollkvótar fyrir búvörur frá ríkjum Evrópusambandsins fari stækkandi til ársins 2022, munu þeir ekki rúma þann innflutning á þessum kjötvörum sem fram hefur farið undanfarin ár, eins og eftirfarandi tafla sýnir. Gera má ráð fyrir að neysla á viðkomandi vörum haldi áfram að aukast á næstu árum eins og undanfarin ár.

Gengur beint gegn markmiði frumvarpsins
„Það er því deginum ljósara að með ákvæðum frumvarpsdraganna er verið að þrengja að innflutningi á viðkomandi kjötvörum. Afleiðingin getur ekki orðið nein önnur en minni erlend samkeppni við innlendan landbúnað með tilheyrandi verðhækkunum, sem gengur beint gegn yfirlýstu markmiði frumvarpsins,“ segir í umsögn félagsins. „FA telur að eðlileg vinnubrögð, og í samræmi við yfirlýst markmið frumvarpsdraganna, væru að gefnir yrðu út opnir tollkvótar á lægri tollum allt árið eða mestan hluta árs fyrir þá skrokkhluta sem skortur hefur verið á undanfarin ár.“

Ávinningur neytenda í besta falli tímabundinn
FA hefur einnig efasemdir um aðra megintillögu frumvarpsdraganna, sem er að skipta um aðferð við uppboð á tollkvótum. Í stað þess að selja tollkvótana hæstbjóðanda á að taka upp svokallað jafnvægisútboð, en þá borga allir innflytjendur sem fá tollkvóta lægsta samþykkta verð fyrir þann tollkvóta sem í boði er. Í greinargerð frumvarpsdraganna segir að þetta muni lækka það verð sem innflytjendur greiða fyrir kvótana frá því sem nú er og neytendur njóta þess í lægra verði innfluttra búvara. FA segir í umsögn sinni að þetta geti átt við tímabundið, en rökstyður að verð fyrir tollkvóta muni fljótlega hækka á ný vegna breyttrar hegðunar bjóðenda.

„Sagan sýnir […] að útboðsgjaldið hefur á lengri tíma þá tilhneigingu að hækka stöðugt og ná jafnvægi í tölu sem er rétt undir kostnaði innflytjenda af að flytja viðkomandi vöru inn á fullum tolli. Engin ástæða er til að ætla að langtímaþróunin verði önnur, þótt breytt útboðsaðferð verði notuð. Þannig mun áframhaldandi uppboð á tollkvóta áfram éta upp smám saman ávinning fyrirtækja og neytenda af því tollfrelsi sem samið hefur verið um í alþjóðasamningum og stjórnmálamenn halda gjarnan fram á hátíðisstundum að eigi að stuðla að lægra vöruverði og meiri samkeppni,“ segir í umsögn FA.

Hætt verði að bjóða upp tollkvóta
Tekið er undir tillögu Brynhildar Pétursdóttur, sem var fulltrúi Neytendasamtakanna í starfshópi sem samdi tillögur sem liggja frumvarpinu til grundvallar, en hún lagði til að hætt yrði að bjóða upp tollkvóta og þess í stað farin blönduð leið, þar sem 50% kvótans yrði úthlutað með hlutkesti og 50% á grundvelli sögulegra viðskipta (markaðshlutdeild). Rökstuðningur fulltrúa NS var að útboðsleiðin myndi hækka verð til neytenda og væri því ekki vænleg út frá hagsmunum þeirra, enda væri markmiðið með tollkvótunum að auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli landa.

Umsögn FA um frumvarpsdrögin

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning