Þriðjungur gengislána fyrirtækja enn í ágreiningi

20.03.2015

IMG_3204Félag atvinnurekenda hélt í morgun vel sóttan fund um stöðu gengislána íslenskra fyrirtækja. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, fór í erindi sínu yfir upplýsingar sem teknar hafa verið saman af hópi hagfræðinga og lögfræðinga um stöðu lánanna og þróun dóma í Hæstarétti.

Sjötíu Hæstaréttardómar á sjö árum
Meðal þess sem fram kom hjá Ólafi er að sjö árum eftir hrun og eftir að sjötíu dómar hafa verið kveðnir upp í gengislánamálum í Hæstarétti eru mál fjölda fyrirtækja enn óleyst. Telja má að 547 milljarðar, eða um þriðjungur af upphaflegri upphæð gengislána til fyrirtækja, sé enn í ágreiningi og málin óleyst. Á héraðdómstigi hafa fallið að minnsta kosti 186 dómar í málum sem varða gengistryggingu lána.

Ólafur benti á að fyrirtæki í svipaðri stöðu og með sambærileg lán, jafnvel keppinautar, hefðu fengið mismunandi úrlausn sinna mála eftir orðalagi lánasamninga og formsatriðum á borð við hvort borgað hefði verið inn á lánin af tékkareikningi eða gjaldeyrisreikningi „Það er því hægt að sýna því skilning að forsvarsmenn sumra fyrirtækja upplifi það sem svo að byrðunum sé dreift misjafnlega,“ sagði Ólafur.

Í lok máls síns spurði Ólafur hvort bankarnir hefðu látið dómstólum eftir að ráðstafa afslætti af lánunum, í stað þess að gera frjálsa samninga við viðskiptavini sína á viðskiptalegum forsendum. Hann benti jafnframt á að samkvæmt niðurstöðum hagfræðinga sem hefðu skoðað málið væri enn óráðstafað um 290 milljörðum króna af upphaflegum afslætti sem gefinn hefði verið af gengislánunum þegar þau voru færð inn í nýju bankana. „290 milljarðar væru mikil innspýting fyrir íslenskt efnahagslíf, en hún situr föst í pípunum,“ sagði Ólafur.

Löng bið eftir úrlausn
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness og stjórnarmaður í FA, sagði frá reynslu síns fyrirtækis af samskiptum við Landsbankann vegna gengislána. Hann sagði að það hefði ekki gengið eftir að gengislán yrðu gerð upp með hliðsjón af fordæmi Hæstaréttar í svokölluðu Borgarbyggðarmáli, þar sem fallist var á að sveitarfélagið Borgarbyggð gæti byggt á fullnaðarkvittunum við uppgjör á lánasamningum við Sparisjóð Mýrasýslu, síðar Arion banka. Fyrirtækið hefði verið dregið á svörum og ítrekað gefin þau svör að það væri næst í röðinni. Síðan hefði brugðið svo við að bankinn hefði vísað til fordæmis Hæstaréttar í máli Haga kegn Arion banka, en þar hefði niðurstaðan verið sú að ekki hefði verið nægur aðstöðumunur milli bankans og Haga vegna stærðar og sérþekkingar síðarnefnda fyrirtækisins. Innnes hefði verið sett í sama flokk og verslunarrisinn Hagar, sem hefði komið verulega á óvart. Innnes væri nú komið í málaferli gagnvart bankanum, sem ljóst væri að myndu dragast á langinn.

Magnús sagði að Innnes væri langt í frá eina fyrirtækið í þessari stöðu. „Auðvitað er ólíðandi að atvinnulífið búi við þessa óvissu og mál þess séu látin sitja á hakanum misserum og árum saman, þvert á eigin yfirlýsingar bankanna,“ sagði hann.

Glærur Ólafs Stephensen

Glærur Magnúsar Óla

Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni

Nýjar fréttir

Innskráning