Tilefni til málsóknar vegna 75.000 króna eftirlitsgjalds á rafrettur

07.01.2019
Breitt vöruúrval er í sérverslunum með rafrettur og hundruð vörunúmera.

Velferðarráðuneytið hefur engar upplýsingar veitt um kostnaðarútreikninga að baki 75.000 króna gjaldi, sem lagt er á hverja tilkynningu um markaðssetningu á rafrettum og vörum þeim tengdar, en heilbrigðisráðherra setti reglugerð þessa efnis í byrjun september. Erindi Félags atvinnurekenda vegna reglugerðarinnar, sem sent var ráðuneytinu í september, var loks svarað rétt fyrir jól, eftir að FA hafði kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna viðbragðaleysis ráðuneytisins. Í svari ráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi „til skoðunar hvernig gjaldið endurspeglar kostnað við móttöku tilkynninga, geymslu þeirra sem og meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem fylgdu þeim.“ Áætlar ráðuneytið að þeirri skoðun ljúki fyrir 1. mars næstkomandi. Gjaldtakan hófst hins vegar 1. september og stendur enn.

Gjaldið byggt á ágiskun
Forsaga málsins er sú að heilbrigðisráðherra setti reglugerðina í byrjun september, en samkvæmt henni ber framleiðendum og innflytjendum rafrettna að tilkynna markaðssetningu varanna til Neytendastofu. Í upphaflegri gerð reglugerðarinnar var ekkert um fjárhæð eftirlitsgjaldsins sem Neytendastofa tekur, en þegar reglugerðin tók gildi var komið inn í hana ákvæði um 75.000 króna gjald fyrir hverja tilkynningu. Fyrir marga innflytjendur og seljendur rafrettna getur þetta þýtt tuga milljóna króna útgjöld. FA ritaði ráðuneytinu erindi, þar sem gerðar voru margvíslegar athugasemdir við vinnubrögðin við setningu reglugerðarinnar og meðal annars bent á þá meginreglu stjórnsýsluréttar að eftirlitsgjöld verði eingöngu nýtt til að standa straum af þeim kostnaði, sem af viðkomandi eftirlitsaðgerð leiðir og þurfi fjárhæð þeirra að byggjast á traustum útreikningum. Félagið gerði alvarlega athugasemd við ákvörðun fjárhæðar gjaldsins, sem virtist byggð á ágiskun, án þess að kostnaðargreining lægi fyrir, og væri langt umfram raunhæfan kostnað við eftirlitið. Gjaldið væri þannig í raun ólögmætur skattur. Félagið krafðist ógildingar reglugerðarinnar og bauð jafnframt fram samstarf við ráðuneytið um setningu nýrrar reglugerðar.

Engin svör fyrr en eftir kvörtun til umboðsmanns
Engin svör bárust frá ráðuneytinu, ekki heldur eftir ítrekun erindisins 19. október sl. Í byrjun desember leitaði FA því til umboðsmanns Alþingis, sem skrifaði velferðarráðuneytinu 12. desember og spurði hvað væri að frétta af meðferð og afgreiðslu erindisins. Níu dögum síðar fékk FA níu lína bréf frá ráðuneytinu, þar sem eftirfarandi kemur fram: „Reglugerðin var unnin í samstarfi við Neytendastofu og byggir upphæð gjaldtökunnar á tillögu Neytendastofu um gjaldtöku. Ráðuneytið hefur til skoðunar hvernig gjaldið endurspeglar kostnað við móttöku tilkynninga, geymslu þeirra sem og meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem fylgdu þeim, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga [um] rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018. Áætlar ráðuneytið að þeirri skoðun ljúki fyrir gildistöku laganna 1. mars nk. og verður Félag atvinnurekenda upplýst um niðurstöðu þeirrar skoðunar.“ Engin umfjöllun er í bréfinu um aðra gagnrýni FA á vinnubrögð við setningu reglugerðarinnar.

Óboðleg stjórnsýsla
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að þetta sé að mati félagsins fullkomlega óboðleg stjórnsýsla. „Eitt er að ráðuneyti svari ekki bréfum frá samtökum fyrirtækja, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta vegna stjórnvaldsákvarðana. Því miður er það ekki einsdæmi; við biðum í átta mánuði eftir svari frá atvinnuvegaráðuneytinu vegna annars mikilvægs máls. Annað er svo að það er fráleitt að ráðuneytið ætli að vera búið að komast að því við gildistöku laganna í byrjun mars hvort gjaldtakan sé lögmæt. Gjaldtökuákvæðið hefur verið virkt frá 1. september 2018 og fyrirtækin, sem um ræðir, áttu rétt á því strax í upphafi að fá að vita að traustir kostnaðarútreikningar lægju að baki gjaldtökunni. Nú virðist sem ráðuneytið ætli að reikna sig upp í gjaldið eftirá. Undanfarin ár hafa margir dómar fallið, þar sem ríkið hefur verið dæmt til að endurgreiða fyrirtækjum eftirlitsgjöld, sem hafa ýmist verið rangt eða ekki kostnaðargreind, eins og við blasir í þessu tilviki. Með þessum vinnubrögðum gefur ráðuneytið fullt tilefni til málsóknar á hendur ráðherra,“ segir Ólafur.

Viðtal við Ólaf Stephensen í morgunútvarpi Rásar 2, 8. janúar 2019 (á 53.05)

Bréf FA til velferðarráðuneytisins 21. september 2018
Bréf velferðarráðuneytisins til FA 21. desember 2018

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning