Tilefnis- og ábyrgðarlaust að viðra hugmyndir um uppsögn EES

06.02.2019
Málstofan í Háskólanum í Reykjavík var vel sótt.

Það er tilefnis- og ábyrgðarlaust að viðra hugmyndir um að endursemja um EES-samninginn eða segja samningnum upp, til dæmis vegna hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins eða dóma EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar um að Íslandi beri að fara að ákvæðum samningsins um frjáls viðskipti með búvörur. „Þessi mál eru ekki þannig vaxin að nokkur ástæða sé til að setja mikilvægasta viðskiptasamning Íslandssögunnar í uppnám,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í málstofu sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins. Málstofan var haldin á vegum Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR, utanríkisráðuneytisins og sendinefndar ESB á Íslandi. Hægt er að horfa á upptöku af umræðunum í spilaranum hér að neðan.

Ólafur sagði að áþreifanlegt dæmi um þann hag sem íslensk fyrirtæki hefðu af aðganginum að 500 milljóna markaði Evrópska efnahagssvæðisins væri upptaka matvælalöggjafar Evrópusambandsins í samninginn, bæði fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir. „Það þýðir að ekki aðeins fer langstærstur hluti íslenskra sjávarafurða án tolla á innri markað ESB, heldur sæta hvorki íslenskar sjávarafurðir né búvörur heilbrigðiseftirliti á landamærum við útflutning til annarra EES-ríkja, sem þýðir að útflytjendur sleppa við kostnað, umstang og tafir sem myndu gera þeim mjög torvelt að koma vöru sinni ferskri á markað,“ sagði Ólafur.

EES stuðlaði að því að brjóta niður smákóngaveldi
Hann sagði að EES-löggjöfin, ekki síst á sviði samkeppnismála, og stofnanakerfi samningsins; Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn, hefðu treyst stöðu minni og meðalstórra fyrirtækja gagnvart stórfyrirtækjum og samsteypum og gagnvart verndarstefnu sem stjórnvöld hefðu rekið í þágu sérhagsmuna. Það væri því óhætt að segja að alþjóðleg löggjöf, sem væri mótuð út frá almannahagsmunum fremur en sérhagsmunum, hefði stuðlað að því að brjóta niður smákóngaveldi á Íslandi, bæði í atvinnulífinu og í pólitík og stjórnsýslu.

Ólafur benti á að EES-löggjöfin hefði stuðlað að því að draga úr ríkisvæðingu og markaðsvæða stóra geira atvinnulífsins, til að mynda orkumarkað, fjarskiptamarkað og póstmarkað. Hún hefði líka verið fyrirtækjum vernd gagnvart geðþóttaákvörðunum stjórnvalda, til dæmis um það hvaða vörur megi flytja inn eða markaðssetja.

Hagsmunir íslensks sjávarútvegs af að koma fiski ferskum á markað eru gífurlega miklir.

Útflutningshagsmunir margfalt meiri en hagsmunir vegna innflutnings búvöru
„Út frá hagsmunum félagsmanna FA er tilefnislaust og ábyrgðarlaust að viðra hugmyndir um að endursemja um EES eða segja samningnum upp, til dæmis vegna hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins eða dóma EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar um að Íslandi beri að fara að ákvæðum samningsins um frjáls viðskipti með búvörur. Þessi mál eru ekki þannig vaxin að nokkur ástæða sé til að setja mikilvægasta viðskiptasamning Íslandssögunnar í uppnám,“ sagði framkvæmdastjóri FA. Hann benti á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði öðrum og meira aðkallandi viðræðum að sinna – áhuginn á að taka upp EES-samninginn væri enginn og ferlið auk þess flókið og tímafrekt. Ólafur sagði að tal um að þriðji orkupakkinn þýddi að Evrópusambandið fengi yfirráð yfir íslenskum orkulindum og að um væri að ræða fullveldisafsal eða stjórnarskrárbrot væri ýmist byggt á misskilningi eða hreinlega röngum upplýsingum.

Þá sagði framkvæmdastjóri FA að ætlaði Ísland að halda áfram að brjóta EES-samninginn hvað varðar innflutning ferskvöru vegna krafna sérhagsmunaaðila í landbúnaði, yrði hagsmunum útflytjenda matvöru, einkum fyrirtækja í sjávarútveginum, í hættu stefnt. „Þar er um að ræða milljarðahagsmuni sem eru margfalt meiri en það tap sem innlendur landbúnaður getur nokkurn tímann reiknað sig upp í vegna vaxandi erlendrar samkeppni,“ sagði Ólafur.

Þarf að bæta rekstur samningsins
Framkvæmdastjóri FA sagði að þótt EES hefði skilað Íslandi gífurlegum hagsbótum, teldi FA að að gera þyrfti verulega bragarbót á rekstri EES-samningsins af Íslands hálfu og nýta mun betur þau tækifæri, sem íslenzk stjórnvöld hafa til að hafa áhrif á löggjöf sem tekin er upp í samninginn. Jafnframt væri innleiðing EES-reglna iðulega meira íþyngjandi fyrir atvinnulífið en hún þyrfti að vera og rifjaði Ólafur upp tillögur FA um hvernig mætti fyrirbyggja slíkt.

Hægt er að horfa á allt málþingið í spilaranum hér að neðan. Erindi Ólafs Stephensen hefst á 1.39.50.

Erindi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í málstofunni

Umfjöllun Vísis um málstofuna

Frétt Stöðvar 2

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning