Tollvernd mun meiri en í samanburðarlöndum

05.05.2017

Tollvernd fyrir landbúnað er mun meiri hér á landi en í samanburðarlöndum Íslands. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í grein í nýlegu tölublaði Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál.

„Í umræðunni um tolla er oft gert mikið úr því að öll ríki verndi sinn landbúnað með tollum. Það er rétt, svo langt sem það nær. Það er samt mjög mikill munur á því hversu háir tollarnir eru,“ segir í grein Ólafs. „Bændasamtökin hafa haldið því á lofti að Evrópusambandið leggi þannig tolla á fleiri tollskrárnúmer búvara en Ísland gerir. Það er rétt, enda er búvöruframleiðsla miklu fjölbreyttari í ESB en hér á landi. Þegar hlutfall tollanna er skoðað, kemur önnur mynd í ljós. Tollar ESB á búvörur eru að meðaltali 18%, þótt finna megi dæmi um tolla sem eru yfir 100% af innflutningsverði vöru. Algengast er að í íslenzku tollskránni leggist 30% verðtollur á innfluttar búvörur og svo bætist við magntollur, föst krónutala á kíló. Samanlagt geta þessir tollar lagzt út á 170-180% rauntoll.

Önnur ríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hafa raunar gagnrýnt landbúnaðartolla Íslands, bæði vegna þess hvað þeir eru háir og vegna þess hvað þessi tvöfalda tollheimta er ógegnsæ.

Ásgeir Friðrik Heimisson hagfræðingur hefur tekið saman og birt samanburð á tollbindingu á búvörum, samkvæmt gögnum frá WTO. Sá samanburður sýnir að tollvernd á mjólkur- og kjötvörum á Íslandi er umtalsvert meiri en bæði í Noregi og Sviss, sem vernda sinn landbúnað tiltölulega mikið, og margfalt meiri en í Evrópusambandinu.“

Vísbending 13. tbl 2017

Nýjar fréttir

Innskráning