Undanþága frá samkeppnislögum takmarkist við félög undir stjórn bænda

30.01.2026

Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra til breytinga á búvörulögum, en gagnrýnir að látið hafi verið undan þrýstingi stórra afurðastöðva í landbúnaði og undanþágur frá samkeppnislögum verið víkkaðar frá þeim drögum að frumvarpinu, sem voru birt í október. FA leggur til að undanþágurnar takmarkist við framleiðendafélög, þ.e. félög sem eru í eigu og/eða undir stjórn bænda. Þá leggur félagið til að fyrirtæki, sem nýti sér undanþáguna, fái ekki að bjóða í tollkvóta til að flytja inn búvörur.

Í umsögn FA um frumvarpið, sem send hefur verið atvinnuveganefnd Alþingis, fagnar félagið því að sníða eigi ýmsa vankanta af þeim breytingum á búvörulögunum sem gerðar voru vorið 2024, auk þess að þrengja undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, en hún var lögfest 2004.

Í gildandi landbúnaðarstefnu er ákvæði um að tryggja skuli að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannaríkjum, þar sem starfað sé eftir EES-löggjöf. Þær breytingar, sem samþykktar voru vorið 2004, gengu hins vegar miklu lengra eins og rakið er nánar í umsögninni.

„Með drögum að frumvarpi þessu, sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda 3. október sl., var leitazt við að vinda ofan af breytingunum og færa undanþágurnar raunverulega til svipaðs horfs og í nágrannalöndunum. Þannig var gert ráð fyrir að undanþágur frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga takmörkuðust við félög, sem skilgreind væru sem framleiðendafélög, þ.e. í eigu og undir stjórn bænda,“ segir í umsögn FA.

„Með þeim breytingum, sem ráðuneytið hefur síðan gert á málinu, hefur hins vegar augljóslega verið látið undan þrýstingi afurðastöðva í mjólkuriðnaði og nautgripa-, sauðfjár- og hrossaslátrun. Víðtæk undanþága frá samkeppnislögum, sbr. 2. og 3. gr. frumvarpsins, er látin ná til allra afurðastöðva í þessum greinum, burtséð frá eignarhaldi þeirra eða stjórn. Auk framleiðendafélaga er afurðastöðvum í bæði mjólk og rauðu kjöti veitti heimild til að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er varðar framleiðslu einstakra vara og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu viðkomandi búvara. Með þessu er gengið miklu lengra en í nágrannalöndunum, eins og raunar er viðurkennt í greinargerð frumvarpsins. Góðan rökstuðning fyrir þessari breytingu frá frumvarpsdrögunum er hins vegar ekki að finna í greinargerðinni.“

Tækifæri til að styrkja stöðu bænda hent út um gluggann
FA bendir á að fyrir vikið verði allt það púður, sem í frumvarpinu og greinargerð þess er eytt í að búa til umgjörð um framleiðendafélög, sem skilgreind eru sem félög í eigu eða undir stjórn bænda, verulega hjákátlegt. FA studdi þá tillögu frumvarpsdraga ráðherra að veita fyrirtækjum, sem uppfylltu skilyrði þess að teljast framleiðendafélög, undanþágu frá samkeppnislögum, á þeim forsendum að þannig mætti raunverulega styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni á búvörumarkaði. FA taldi að þannig myndi skapast hvati til þess að afurðastöðvar, sem í dag uppfylla ekki þau skilyrði, sem í frumvarpinu eru gerð til framleiðendafélaga, myndu gera breytingar á skipulagi sínu til að tryggja að þær væru raunverulega undir stjórn bænda.

    „Í greinargerð frumvarpsins stendur áfram þessi málsgrein, sem er nú orðin fullkomlega kjánaleg: „Í einhverjum tilvikum kann að þurfa að endurskipuleggja [afurðastöðvar] til að uppfylla þau skilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu, ekki síst til að tryggja að þær séu undir stjórn frumframleiðenda, þ.e. bænda.“ Af hverju ættu afurðastöðvar að breyta skipulagi sínu til að teljast framleiðendafélag, þegar ákveðið hefur verið að þær haldi undanþágunni frá samkeppnislögum án þess að teljast framleiðendafélag? Þarna hefur ráðherra, undir þrýstingi frá sérhagsmunaaðilum í búvöruframleiðslu, hent út um gluggann tækifæri til að efla stöðu bænda. Þetta er ekki í samræmi við meint markmið frumvarpsins um að styrkja stöðu frumframleiðenda,“ segir í umsögn FA.

    Þeim sem nýta undanþáguna verði óheimilt að bjóða í tollkvóta
    FA leggur til að undanþáguákvæðin takmarkist við félög í eigu og undir stjórn bænda. Félagið leggur jafnframt til að félögum, sem nýti sér undanþáguna frá samkeppnislögum, verði óheimilt að taka þátt í útboðum á tollkvóta, ásamt félögum sem eru þeim tengd beinum og óbeinum eignatengslum. „Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að innlendir framleiðendur kjötvara hafa gerzt stórtækir í innflutningi sömu vara og hafa undanfarin ár t.d. hreppt um eða yfir helming alls tollkvóta fyrir kjötvörur samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins. Innlendar afurðastöðvar hafa stundað að bjóða hátt í tollkvótann, sem ýtir upp verði á innflutningi almennt, og þannig hindra innlendir framleiðendur að innflutningur veiti þeim sjálfum virka verðsamkeppni. Að mati FA er eðlilegt að það sé skýrt að félög og fyrirtæki, sem hafa kallað eftir undanþágum frá samkeppnislögum til að standa sterkar í samkeppni við innflutning, séu þá raunverulega í samkeppni en fái ekki tækifæri til að spila á kerfi útboðs tollkvóta til að hindra hana,“ segir FA í umsögn sinni.

    Umsögn FA í heild

    Nýjar fréttir

    Innskráning