Útboðsgjald á kjötvörum tvö- til fjórfaldast á þremur árum

05.12.2022

Útboðsgjald, sem innflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja inn búvörur án tolla frá ríkjum Evrópusambandsins, svokallaða tollkvóta, hækkaði enn í síðasta útboði matvælaráðuneytisins. Þannig hækkaði gjaldið fyrir kíló af tollkvóta fyrir nautakjöt og lífrænt ræktað alifuglakjöt um fjórðung.

Á þremur árum, frá síðasta tollkvótaútboði ársins 2019, hefur útboðsgjald á kjötvörum hækkað um hundruð króna á kíló; gjaldið fyrir nautakjötskvóta hefur tvöfaldast, fyrir svínakjötskvóta þrefaldast, fyrir alifuglakjöt ræktað með hefðbundnum aðferðum hefur það ríflega tvöfaldast og fyrir lífrænt ræktað alifuglakjöt hátt í fjórfaldast, eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Hér er um að ræða hundruða króna hækkun á innflutningsverði viðkomandi vara, sem bitnar að sjálfsögðu illa á neytendum.

Þróun útboðsgjalds fyrir tollkvóta undanfarin ár. Tölurnar í töflunni eru krónur á kíló tollkvóta.

Tilraunir til að stuðla að lækkun hafa mistekist
Í árslok 2019 þótti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ljóst að útboðsgjald á tollkvótum væri orðið of hátt og hann lagði fram frumvarp um breytta útboðsaðferð, sem átti að stuðla að lækkunum. Atvinnuvegaráðuneytið eins og það var þá kallað taldi að þáverandi fyrirkomulag útboðs á tollkvóta hefði „leitt til hærra vöruverðs fyrir neytendur, þvert á tilgang þess sem að baki tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins árið 2015 liggur.“ Kristján Þór Júlíusson, þáverandi ráðherra, sagðist „gera ráð fyrir að kostnaður vegna útboða lækki talsvert.

Í ágúst síðastliðnum, eftir að fyrir lágu miklar hækkanir á útboðsgjaldi í niðurstöðum útboðs sem þá var kynnt, sendi Félag atvinnurekenda Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra erindi og benti á að tilraunir til að stuðla að lækkunum á útboðsgjaldinu hefðu augljóslega mistekist. Því væri ástæða til að skoða nýjar leiðir við úthlutun tollkvóta og úthluta þeim án endurgjalds.

Einu viðbrögð matvælaráðuneytisins við því erindi voru að fækka útboðum tollkvóta úr þremur á ári í tvö og var von ráðuneytisins að sú breyting stuðlaði að lækkun útboðsgjalds. Það gekk augljóslega ekki eftir, eins og sjá má glöggt á grafinu hér að neðan.

Útboðsgjald farið að slaga upp í fullan toll

Í umfjöllun Fréttablaðsins um niðurstöður tollkvótaútboðsins bendir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, á að ein ástæðan fyrir hækkun útboðsgjaldins sé framganga innlendra framleiðenda búvara, sem bjóði hátt í kvóta.

„Tveimur fyrirtækjum, LL42, dótturfélagi Stjörnugríss, og Mata, systurfélagi Ali og Matfugls, tekst þannig að ná til sín 92,5 prósentum af öllum svínakjötskvótanum og 60 prósentum af kvóta fyrir alifuglakjöt ræktuðu með hefðbundnum hætti,“ segir Ólafur í viðtali við blaðið og bendir á að í þessum tveimur kjöttegundum, svína- og alifuglakjöti, sé útboðsgjaldið ásamt fjármagnskostnaði nú í mörgum tilvikum orðið álíka hátt og fullur tollur af viðkomandi vörum.

„Ástæðan fyrir því að innlendir framleiðendur leika þennan leik er að með því að ná til sín stórum hluta kvótans geta þeir hindrað samkeppni við eigin vörur og stjórnað verðinu,“ segir Ólafur.

Stjórnvöld og innlendir framleiðendur eyðileggja samkeppnina
Stjórnvöld og búvöruframleiðendur eru að sögn Ólafs í sameiningu að eyðileggja samkeppnina sem tollasamningurinn við Evrópusambandið hafi átti að búa til á íslenskum matvörumarkaði.

„Af hálfu stjórnvalda hefur útboðsfyrirkomulagið beinlínis verið lagt upp sem verndaraðgerð fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu og innlendir framleiðendur verða æ snjallari í að spila á kerfið til að spilla fyrir samkeppni,“ segir Ólafur, sem bendir í viðtalinu á að FA hafi borist vísbendingar um að innlendir kjöt- og mjólkurvöruframleiðendur hafi stundað það að bjóða í tollkvóta fyrir ost og flytja hann svo ekki inn. Það dragi úr framboðinu.

„Við höfum sent Samkeppniseftirlitinu ábendingu um þessa viðskiptahætti. Þá höfum við átt fund með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að benda á það hvernig íslensk stjórnvöld ganga að okkar mati á bak samningsskuldbindingum sínum. Þeim fannst þetta athyglisverðar upplýsingar,“ er haft eftir Ólafi í Fréttablaðinu.

Umfjöllun Fréttablaðsins

Nýjar fréttir

Innskráning