Útboðsgjald hækkar mikið vegna nýs útboðsfyrirkomulags og búvörusamninga

09.01.2017
Mjolkurvorur
Útboðsgjald fyrir tollkvóta á ostum hækkar um nærri 87%. Kostnaðarverð innflytjandans hækkar um tæplega 400 krónur á kíló og verð til neytenda hækkar sem því nemur.

Útboðsgjald, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir tollfrjálsan innflutning á búvörum frá ríkjum Evrópusambandsins hækkar mikið á milli ára, í mörgum tilvikum um tugi prósenta. Mest hækkar útboðsgjald á osti, eða um nærri 400 krónur á kíló, sem er um 87% hækkun. Hærra útboðsgjald mun valda verðhækkun á vörunni miðað við það sem ella hefði orðið og ætla má að rétt um 200 milljónir króna renni úr vösum neytenda í ríkissjóð á fyrri helmingi ársins vegna útboðsgjaldsins.

Tollkvótar eru heimildir til að flytja inn takmarkað magn vöru á engum tolli eða lægri en gildir almennt samkvæmt tollskrá. Tollfrjálsir innflutningskvótar samkvæmt samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur frá 2007 eru boðnir upp og kvóta úthlutað til hæstbjóðenda. Að þessu sinni var í fyrsta sinn úthlutað til hálfs árs í senn, helmingi af því magni sem heimilt er að flytja inn án tolla á ári samkvæmt samningnum. Hinn helmingurinn verður boðinn upp síðar á árinu.

Afleiðing breytts útboðsfyrirkomulags og búvörusamnings
„Útboðsgjaldið hefur farið síhækkandi undanfarin ár. Þetta eru samt miklu meiri hækkanir en í fyrra. Við sjáum líka að umframeftirspurnin eftir vörunum er enn meiri en í fyrra; allt að sjöföld miðað við það magn sem er í boði. Það er enginn vafi á því hverjar orsakirnar fyrir þessari hækkun eru. Það er í fyrsta lagi sú ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins að fjölga útboðunum yfir árið. Félag atvinnurekenda varaði við því að það myndi leiða til hækkunar á tollkvótunum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Hins vegar er 87% hækkunin á verði ostakvótans bein afleiðing ákvæða í búvörusamningi ríkisins og Bændasamtakanna um að hækka almenna tolla á innfluttum ostum. Við höfðum líka varað við því að sú hækkun myndi leiða af sér hækkun á kvótaverðinu og þar af leiðandi á verði til neytenda.“

Kvóti í boði 2014-2016, tonn Umsóknir 2014, tonn Umsóknir 2015, tonn Umsóknir 2016, tonn Í boði f.hl. 2017, tonn Umsóknir f.hl. 2017, tonn Umframeftirspurn 2017, margfeldi
Naut 100 334 461 438 50 223 4,5
Svín 200 615 798 570 100 398 4,0
Alifuglar 200 820 1043 867 100 520 5,2
Þurrkað og reykt kjöt 50 45 57 99 25 43 1,7
Ostur (vöruliður 406) 80 170 254 195 40 192 4,8
Ostur (svæðisbundnir) 20 37 52 80 10 51 5,1
Pylsur 50 66 123 122 25 114 4,6
Elduð kjötvara 50 200 222 225 25 173 6,9

Minnsta hækkunin er á tollkvóta fyrir alifuglakjöt. Þar hækkar útboðsgjaldið um 3,4%. „Ástæðan fyrir því er að fyrir nokkrum árum var verðið fyrir alifuglakvótann einfaldlega komið upp í nokkurn veginn það sama og það kostar innflytjendur að flytja inn alifuglakjöt frá ESB á fullum tolli,“ segir Ólafur. „Útboðsgjaldið fyrir aðrar vörur stefnir upp í sama þak. Þannig er ávinningur neytenda af tollfrelsinu étinn upp smátt og smátt með þessum kvótauppboðum.“

Stefnir í að verða yfir 400 milljónir á árinu
Ólafur vekur athygli á því að á síðasta ári nam útboðsgjaldið af ESB-tollkvótum um 330 milljónum króna. „Nú eru þetta 200 milljónir eingöngu fyrir fyrri hluta ársins. Allar líkur eru á að boðið verði enn hærra í kvótann á seinni hluta ársins vegna hins nýja uppboðsfyrirkomulags og að þannig verði það yfir 400 milljónir króna sem ríkið hefur af neytendum í formi útboðsgjalds af ESB-tollkvóta á þessu ári. Með ákvörðun sinni hefur því sitjandi ráðherra haft af neytendum tugi milljóna króna eins og ekkert sé sjálfsagðara.“

Meðalverð 2014 kr Meðalverð 2015 kr Meðalverð 2016 kr. Meðalverð 2017 kr. Hækkun 2016-2017 í %
Naut 460 521 560 629 12,3
Svín 200 211 255 298 16,9
Alifuglar 616 618 619 643 3,9
Þurrkað og reykt kjöt (serrano, parmaskinka o.fl.) 120 158 182 212 16,5
Ostur (vöruliður 406) 410 443 458 856 86,9
Ostur (svæðisbundnir) 434 445 474 687 44,9
Pylsur 142 176 204 313 53,4
Elduð kjötvara 505 614 725 881 21,5

FA hefur mótmælt fleiri uppboðum og bent á aðrar leiðir til að úthluta kvóta
Félag atvinnurekenda hefur mótmælt harðlega þeirri breytingu að bjóða kvótann upp tvisvar á ári. „Sú tillaga kom frá starfshópi landbúnaðarráðherra, þar sem sátu eingöngu fulltrúar ríkisins, landbúnaðarins og annarra innlendra framleiðenda. Engum fulltrúa neytenda eða innflytjenda var boðið að borðinu. Tillagan er ættuð úr ranni Bændasamtaka Íslands, það fengum við staðfest á fundi með þeim 20. janúar 2016,“ segir Ólafur.

Atvinnuvegaráðuneytið hefur ekkert gert með mótmæli FA við breytingunni. FA hefur með vísan til stjórnsýslu- og upplýsingalaga krafið ráðuneytið um rökstuðning fyrir breytingunni og gögn sem hún byggist á

FA hefur jafnframt látið vinna skýrslu um aðrar leiðir til að úthluta tollkvótunum en með uppboði. „Það hefur verið mjög lítill vilji hjá sitjandi stjórnvöldum til að skoða þær hugmyndir,“ segir Ólafur. „Þetta kerfi er sniðið til að hækka verðið á innflutningi og vinna gegn upprunalegum tilgangi tollasamninga við ESB og WTO, sem var að auka samkeppni við innlenda framleiðslu, lækka verð og fjölga kostum neytenda.“

Umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis um málið

Tilkynning landbúnaðarráðuneytisins um niðurstöður útboðs á ESB-tollkvótum

Nýjar fréttir

Innskráning