Varað við skorti á sumum vörum

29.12.2014

Fréttablaðið greinir frá því í dag á forsíðu að hugsanlegt sé að sumar vörur skorti í búðum fyrstu dagana á nýju ári vegna þess að innflytjendur bíði með tollafgreiðslu vara þar til eftir áramót.

 

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness og stjórnarmaður í FA, segir í viðtali við blaðið að gildistökuákvæði laganna um afnám vörugjalds þýði að innlendum framleiðendum og innflytjendum sé mismunað. Innflytjendur þurfi til áramóta að standa skil á vörugjaldi til ríkissjóðs við tollafgreiðslu vöru, en framleiðendur þurfi ekki að standa skil á vörugjaldinu vegna vara sem seldar eru eftir áramót.

 

„Með þessu er verið að mismuna erlendum framleiðendum miðað við íslenska framleiðendur. Það er spurning hvort innflutningsverslunin eigi að leita réttar síns varðandi þetta,“ segir Magnús Óli.

 

Ekki var hlustað á tillögur FA um hvernig gera mætti innflytjendur og framleiðendur jafnsetta við afnám vörugjaldanna. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir möguleika á því að einhver vöruskortur verði vegna þessa.

„Menn eru búnir að flytja eins lítið inn og þeir komast af með fyrir áramót. Hjá aðildarfyrirtækjum Félags atvinnurekenda hafa menn sagt að þetta geti þýtt að dagana fyrir og eftir áramót geti orðið einhver skortur á þeim vörum sem bera vörugjöld,“ er haft eftir Ólafi í Fréttablaðinu.

 

„Þetta þýðir líka að fyrst gildistökuákvæðunum var hagað svona þá getur vörugjaldið verið áfram í verði varanna í þrjár til fjórar vikur eftir áramótin. Verðlækkunin skilar sér ekki strax til neytenda,“ segir Ólafur.

 

Frétt Fréttablaðsins á Vísi

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning