Varan okkar er ekki samkeppnisfær – kaupið hana samt

16.06.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaðnum 16. júní 2021. 

Íslenzk matvælafyrirtæki þurfa mörg hver að nota mjólkur- og undanrennuduft í framleiðslu sína, sum í stórum stíl. Þessi hráefni eru notuð t.d. í súkkulaði og annað sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur.

Tvær aðgerðir stjórnvalda ráða því að innlendur matvælaiðnaður er þvingaður til að kaupa þessar vörur af einu fyrirtæki, Mjólkursamsölunni, á verði sem er langt yfir heimsmarkaðsverði. Annars vegar hefur undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum leitt af sér algjöra yfirburðastöðu MS og Kaupfélags Skagfirðinga á mjólkurmarkaðnum. Það er engin innlend samkeppni í sölu mjólkur- og undanrennudufts. Hins vegar eru gífurlega háir tollar á innfluttu mjólkurdufti þar sem Bændasamtökin náðu á sínum tíma „frábærum“ samningi við stjórnvöld um að tollarnir skyldu hækkaðir duglega. Það er engin erlend samkeppni heldur.

Hver sá sem rekur fyrirtæki getur sett sig í þau spor að vera þvingaður til að kaupa aðföng af einu fyrirtæki eingöngu. Viðskiptavinir MS kaupa ekki mjólkurduft vegna verðsins eða gæðanna eftir að hafa skoðað aðra kosti. Þeir kaupa vöruna af því að valdhafarnir hafa rænt þá öllum eðlilegum valkostum. Það er í hæsta máta óeðlileg staða.

Sættir matvælaiðnaðurinn sig við mismunun?
Við þetta bætist að verðið sem Mjólkursamsalan lætur innlenda viðskiptavini sína greiða fyrir mjólkurduft er hátt í tvöfalt hærra en það sem erlendir viðskiptavinir sama fyrirtækis þurfa að borga. Þar er um að ræða erlend matvælafyrirtæki, sem oft og tíðum eru í beinni samkeppni við íslenzk matvælafyrirtæki.

Sú spurning vaknar óneitanlega hversu lengi íslenzkur matvælaiðnaður geti þolað þessa mismunun. Nú er t.d. stutt síðan erlendir fjárfestar, í matvælaiðnaði á Norðurlöndum, keyptu allt hlutaféð í stærsta sælgætisframleiðanda landsins. Hvernig ætli gangi að útskýra fyrir þeim að íslenzka mjólkurduftið sem þeir geta keypt ódýrt erlendis sé dýrara á Íslandi, þar sem það er framleitt? Að það sé í raun ódýrara að framleiða úr íslenzku hráefni erlendis og líklega allra bezt að framleiða bara erlendis úr erlendu hráefni?

Því hefur verið haldið fram að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, sem leiddi af sér sameiningu allra mjólkurafurðastöðva í eina samstæðu, hafi leitt af sér gríðarlega hagræðingu í mjólkuriðnaðinum. Sú hagræðing dugar greinilega ekki til að mjólkuriðnaðurinn treysti sér til að selja öðrum matvælaiðnaði aðföng á samkeppnishæfu verði.

Mjólkuriðnaðurinn vill ekki skipta við sjálfan sig
Ýmislegt bendir til að íslenzkur mjólkuriðnaður líti ekki einu sinni svo á sjálfur að íslenzkar prótínvörur eins og undanrennuduftið og skyrið séu alþjóðlega samkeppnisfærar. Á sínum tíma þrýsti mjólkuriðnaðurinn mjög á um að fá stærri tollfrjálsan innflutningskvóta í löndum Evrópusambandsins fyrir íslenzka skyrið. Hins vegar ber svo við að eftir að tollasamningur Íslands og ESB, þar sem skyrkvótinn rúmlega tífaldaðist, tók gildi árið 2018 hefur útflutningur á skyri til ESB minnkað. Ástæðan er sú að Mjólkursamsalan kýs fremur að framleiða skyr samkvæmt „íslenzkri uppskrift“ í aðildarríkjum ESB úr þarlendri mjólk. Líklegasta skýringin á því, þótt forsvarsmenn MS fáist ekki til að segja það opinberlega, er að íslenzku hráefnin til framleiðslunnar séu einfaldlega of dýr.

Félag atvinnurekenda greindi frá því á dögunum að í viðræðum um fríverzlunarsamning Íslands og Bretlands hefðu brezk stjórnvöld boðið umtalsverðan tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir íslenzkt undanrennuduft, á móti auknum innflutningsheimildum fyrir brezkar búvörur á Íslandi. FA furðaði sig á að í landbúnaðinum hefðu menn ekki viljað grípa þetta tækifæri, þar sem þá hefði hin nýja skyrverksmiðja Íseyjar Skyr í Wales getað unnið skyr úr íslenzku hráefni.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði um þetta í grein í Bændablaðinu: „Ef þetta hefði nú allt gengið eftir þá átti að flytja út iðnaðarvöru fyrir fullunnar landbúnaðarvörur í skiptum. Hvaða heilvita manni hefði dottið í hug að flytja út störf svo mögulegt væri að koma út iðnaðarvöru á verði sem hefði aldrei staðist samkeppni í hinum stóra heimi?“ Þar höfum við það – meira að segja formaður Bændasamtakanna staðfestir að íslenzka undanrennuduftið sé ekki samkeppnisfært. Hann virðist hins vegar ekki átta sig á því að með núverandi fyrirkomulagi er einmitt verið að flytja út störf frá innlendum framleiðslufyrirtækjum sem eru í lakari samkeppnisstöðu vegna þessarar sérhagsmunagæzlu í þágu einokunar og okurs.

Stjórnvöld verða að stíga inn í
Meðal hagsmunaaðila í landbúnaðinum virðist eindregin samstaða um að það skuli pína íslenzkan iðnað til að kaupa aðföng á ósamkeppnisfæru verði. Það er ekki við því að búast að Mjólkursamsalan skipti að eigin frumkvæði um stefnu í þessu máli og reyni að bjóða innlendum viðskiptavinum sínum verð sem stenzt alþjóðlegan samanburð. Hér verða stjórnvöld að stíga inn í, annars vegar með því að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, og hins vegar með því að lækka tolla þannig að matvælaiðnaðurinn geti nálgazt aðföng á skynsamlegu verði.

Núverandi staða er algjörlega óviðunandi. Það verður forvitnilegt að sjá, nú þegar kosningar nálgast, hverjir vilja breyta henni og hverjir vilja óbreytt ástand.

Nýjar fréttir

Innskráning