Alþingi felli niður 76% toll á frönskum kartöflum

12.09.2016

IMG_2484Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu tveggja innflutningsfyrirtækja um að 76% tollur, sem lagður er á innfluttar franskar kartöflur, yrði dæmdur ólögmætur og endurgreiddur. Dómurinn féllst á þau rök íslenska ríkisins í málinu að tollurinn væri ætlaður til almennrar tekjuöflunar, en ekki til að vernda innlenda framleiðslu. Dómurinn er í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli innflutningsfyrirtækja gegn ríkinu vegna ofurtolls á innflutt snakk. Þann toll hefur Alþingi nú ákveðið að fella niður frá og með næstu áramótum. Félag atvinnurekenda skorar á þingið að gera slíkt hið sama varðandi tollinn á franskar kartöflur.

Verndartollur í raun
„Þetta mál er einkennilega vaxið. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að allir tollar á innfluttar vörur verði felldir niður, nema tollar á sumar matvörur. Þau rök hafa verið færð fyrir því að halda verði tollum á þeim vörum að það sé nauðsynlegt til að vernda innlendan landbúnað. Svo koma fulltrúar sömu ríkisstjórnar ítrekað fyrir dómstóla og halda því fram að ofurtollar á einstakar matvörur séu til tekjuöflunar en ekki verndartollar – og dómstólar fallast á þessa röksemdafærslu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Ólafur bendir á að Alþingi hafi í fyrra samþykkt að fella niður 59% ofurtoll á innfluttu kartöflusnakki. Það mál sé mjög svipað vaxið og þetta, eins og dómurinn vísi raunar til í niðurstöðum sínum. „Ríkið hélt því fram að sá tollur væri bara tekjuöflunartollur. Það var hins vegar mjög greinilegt af viðbrögðum innlendra snakkframleiðenda að þeir litu á tollinn sem verndartoll. Alþingi tók rétta ákvörðun um að fella niður gerræðislega skattheimtu á eina vöru. Við hvetjum þingið til að gera slíkt hið sama með tollinn á frönsku kartöflurnar.“

368 milljónir í tolla af frönskum kartöflum
Í málinu var vísað til þess af hálfu innflutningsfyrirtækjanna, Innness og Haga, að eini framleiðandi franskra karaflna á Íslandi annar um 5% af innanlandseftirspurn. Framleiðsla þess fyrirtækis er að stórum hluta úr innfluttum kartöflum. Ofurtollur er því lagður á 95% af neyslu Íslendinga á frönskum kartöflum til að vernda þau 5% sem eftir standa. Miðað við tölur Hagstofunnar um innflutning á frosnum og ófrosnum frönskum kartöflum og 76% tollprósentu má ætla að neytendur hafi á undanförnum 12 mánuðum greitt um 368 milljónir króna í tolla af frönskum kartöflum. Hér er því um mikið hagsmunamál að ræða fyrir neytendur.

„Það er í rauninni alveg fráleitt að íslenska ríkið skuli halda því blákalt fram fyrir dómi að löggjafinn geti lagt ofurskatta á einstakar matvörur til að afla ríkinu tekna, án þess að gefa á því nokkrar skýringar,“ segir Ólafur. „Ef fjármálaráðherra legði til á morgun að lagður yrði 70% tollur á hrísgrjón eða hveiti yrði allt vitlaust. Alþingismenn eiga að sjá sóma sinn í að kippa út þessum fráleita tolli.“

Mikilvægt prinsipp
Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður fór með málið fyrir hönd innflutningsfyrirtækjanna. Páll segir að það sé í raun hneyksli að íslenska ríkið skuli halda því fram fyrir dómi að um almenna tekjuöflun sé að ræða. „Hver trúir því að það sé bara hreinasta tilviljun að ofurskattar séu lagðir á innflutning á þessari tilteknu vöru? Það má vel vera að dómurinn leyfi sér að horfa á þetta mál sem léttvægt vegna þess að þetta eru franskar kartöflur, hver veit? Það er hins vegar ekki hægt að horfa framhjá tvennu. Í fyrsta lagi eru þetta hundruð milljóna sem neytendur greiða á hverju ári. Í öðru lagi felst í þessu gríðarlega mikilvægt prinsipp því að samkvæmt þessari niðurstöðu getur löggjafinn lagt ofurskatta upp á 76% á tiltekna aðila án þess að gefa á því nokkrar skýringar, svo framarlega sem að því er haldið fram að þetta sé gert til þess að afla ríkinu tekna.“

 

Dómur í máli Innness gegn ríkinu

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning