Bandalag um baráttu fyrir tollalækkunum

Baráttan fyrir lækkun tolla setti svip sinn á málefnabaráttu félagsins eins og flest undanfarin ár. Í byrjun ársins myndaði FA bandalag með viðsemjendum sínum innan Alþýðusambandsins, VR og Rafiðnaðarsambandinu, um að krefja stjórnvöld um lækkun tolla í þágu baráttunnar gegn verðbólgunni. FA og stéttarfélögin kröfðust þess jafnframt að tekið yrði á háttsemi innlendra bænda og afurðastöðva, sem hafa stundað að bjóða hátt í tollkvóta fyrir búvörur, halda þannig uppi verðinu á honum og koma jafnframt í veg fyrir samkeppni við sjálfa sig.

FA benti á verðmun á blómum hér og í nágrannalöndunum, en gríðarháir tollar skýra hann að miklu leyti. Þá barðist félagið eindregið fyrir því að tollfríðindi fyrir vörur frá Úkraínu yrðu framlengd, en illu heilli höfðu sérhagsmunaöfl í landbúnaði betur og tollar voru á ný lagðir á vörur frá hinu stríðshrjáða vinaríki okkar.

FA gagnrýndi stjórnvöld, Skattinn og fjármálaráðuneytið, harðlega fyrir stjórnsýslu þessara aðila er tollflokkun á pitsuosti var breytt vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum i landbúnaði. Stjórnsýslan leyndi m.a. gögnum fyrir aðila máls, sem fer gegn stjórnsýslulögum, og fyrir dómstólum. Alþjóðatollastofnunin úrskurðaði að stjórnvöld hefðu tollflokkað vöruna ranglega.

Undir lok ársins sendi FA matvælaráðherra kröfu um að félagið fengi aðild að endurskoðun búvörusamninga hvað tollamál varðar. Félagið færði rök fyrir því að ríkinu væri ekki stætt á að semja við einkaaðila, Bændasamtökin, um að hækka skatta á öðrum einkaaðilum, innflytjendum búvöru, án aðkomu hinna síðarnefndu.

Fréttir um málefnið

6. júní 2023
19. janúar 2023

Innskráning