Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði var áfram eitt af helstu baráttumálum FA. Félagið
deildi hart á Reykjavíkurborg, sem innheimtir um helming allra fasteignaskatta af
atvinnuhúsnæði á landinu og sýndi enga tilburði til að lækka skattprósentu til að mæta
miklum hækkunum á fasteignamati.
Ýmis sveitarfélög brugðust þó vel við áskorun stjórnar FA frá því í júníbyrjun um að lækka
álagningarprósentuna til að mæta hækkunum fasteignamats.
Er leið á haustið og sveitarfélög unnu að gerð fjárhagsáætlana tók FA höndum saman við
Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara í áskorun á ríki og sveitarfélög að grípa til
aðgerða til að hindra að gífurlegar verðhækkanir á fasteignamarkaði leiði til mikilla hækkana
fasteignagjalda á eignir fólks og fyrirtækja. Samtökin bentu á að til skemmri tíma yrðu
sveitarstjórnir að lækka álagningarprósentu, en til lengri tíma þyrftu ríki og sveitarfélög að
ná saman um leiðir til að breyta óskiljanlegu og ósanngjörnu kerfi þar sem skattlagning fólks
og fyrirtækja eltir sveiflur í eignaverði.
Niðurstaðan varð sú að sex af tólf stærstu sveitarfélögum landsins; Kópavogur, Garðabær,
Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar, lækkuðu álagningarhlutfall
fasteignaskatts.