Félag atvinnurekenda vísar alfarið á bug, fyrir hönd félagsmanna sinna í matvælainnflutningi, ásökunum talsmanns Mjólkursamsölunnar um stórfellt tollasvindl og falsanir á tollskýrslum. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA svaraði í þættinum Fréttavaktinni á Hringbraut á miðvikudagskvöld ásökunum Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings MS, sem hún setti fram í sama þætti á mánudagskvöld. Viðtalið við Ólaf má sjá hér, en það hefst þegar 13.50 mínútur eru liðnar af þættinum.
Erna hélt því fram að vegna misræmis í tölum um útflutning búvara og tölum Hagstofunnar um innflutning til Íslands hlyti að vera um fölsun á tollskýrslum að ræða, þ.e. að innflytjendur settu röng tollskrárnúmer í tollskýrslur til að losna við tolla. Erna sakaði innflutningsfyrirtæki ennfremur um að skrá pitsuosta, sem ættu að bera tolla, í tollflokk sem ber ekki tolla. Þetta eru alvarlegar ásakanir sem er ekki hægt að láta ósvarað.
Máli sínu til stuðnings nefndi Erna engin staðfest dæmi um tollasvindl, heldur dró ályktanir út frá áðurnefndu misræmi í hagtölum. Þetta misræmi hefur orðið fjármálaráðuneytinu og Skattinum tilefni til að skoða sérstaklega innflutning á þessum vörum. Félag atvinnurekenda hefur fagnað þeirri skoðun og hvatt yfirvöld til að komast til botns í málinu enda er tollasvindl alvarlegt mál og mikilvægt að allir fari eftir reglunum.
Svindlið finnst ekki
Ólafur rakti í viðtalinu á Hringbraut að Félagi atvinnurekenda hefði gengið illa að finna svindlið. Eftir að Bændasamtök Íslands og Mjólkursamsalan settu fyrst fram þessar alvarlegu ásakanir síðastliðið haust hefur FA gert sína eigin athugun hjá félagsmönnum, sem flytja inn pitsaosta þar sem jurtaolíu er blandað saman við ost úr kúamjólk. Sú athugun leiddi tvennt í ljós:
Í fyrsta lagi er í öllum tilvikum sem FA hefur skoðað um það að ræða að osturinn er fluttur út frá Evrópusambandinu og inn til Íslands á sama tollnúmeri. Það er því ekki um það að ræða að verið sé að skrá vöruna öðruvísi inn til landsins en hún er flutt út frá framleiðslulandinu og sá innflutningur skýrir ekki misræmi í inn- og útflutningstölum.
Í öðru lagi var í öllum tilfellum um það að ræða að fyrirtækin fluttu vörurnar inn á tilteknum tollnúmerum með fullri vitneskju og samþykki íslenskra tollayfirvalda. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staðfesti þetta í þingræðu í október og sagði að það væri erfitt að saka fyrirtæki um að misnota kerfið þegar tollurinn hefði haft þá skoðun að varan ætti heima þar sem hún var tollflokkuð.
Niðurstaðan er þess vegna sú að það er ekki verið að svindla á kerfinu eða falsa tollskýrslur. Umræddar vörur hafa verið flokkaðar í þann tollflokk sem bæði framleiðendur þeirra og íslensk tollayfirvöld hafa talið að ætti að flokka þær. Um er að ræða svokallaða pitsaosta, þar sem jurtaolíu er blandað saman við osta úr mjólkurprótíni. Almennt er viðurkennt, af tollayfirvöldum flestra landa og Alþjóðatollamálastofnuninni, að við slíka blöndun teljist varan ekki lengur hefðbundinn ostur heldur færist á milli tollflokka.
MS sér ofsjónum yfir samkeppni
Það er líka alvarleg ásökun að halda því fram eins og Erna gerði að innflytjendur stingi tollinum bara í vasann; eins og þeir selji hina innfluttu vöru á sambærilegu verði og því sem vinnuveitandi hennar, Mjólkursamsalan, rukkar fyrir rifinn ost. Þessar vörur voru að sjálfsögðu seldar á mun hagstæðara verði af því að á þær var ekki lagður tollur. Það er einmitt það sem MS sá ofsjónum yfir, að þessi innflutningur veitti fyrirtækinu samkeppni.
Mjólkursamsalan, sem Erna vinnur hjá, og Bændasamtökin, sem hún vann hjá áður, hafa þess vegna þrýst mjög á íslensk stjórnvöld að breyta tollflokkuninni; að færa þessa svokölluðu pitsuosta í tollflokk sem ber svo háa tolla að þeir hindra í raun að þessi vara sé flutt inn.
Ekki afstaða Evrópusambandsins
Erna Bjarnadóttir nefndi í þættinum á Hringbraut að hún hefði haft samband við sendinefnd Evrópusambandsins hér á landi og að ESB hefði tekið undir að pitsaosturinn væri rangt tollflokkaður. Það sem þarna er vísað til er einn tölvupóstur, frá einum embættismanni framkvæmdastjórnar ESB, sem FA hefur fengið staðfest skriflega hjá sendinefnd ESB að sé ekki opinber afstaða Evrópusambandsins. Þessi tölvupóstur er hins vegar það gagn sem fjármálaráðuneytið hefur byggt á sína ákvörðun um breytta tollflokkun, raunar þvert á álit sérfræðinga tollstjóra. Fyrirtækin, sem flytja inn þessar vörur hafa borið brigður á þá tollflokkun og munu láta reyna á sína réttarstöðu, meðal annars fyrir dómstólum.
Eftir að hafa skoðað gögn málsins sér FA ekki betur en að fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið hafi þvingað fram endurtollflokkun þessara vara til að mæta þrýstingi hagsmunaaðila í landbúnaðinum, þvert á álit sérfræðinga tollstjóra. Ef eitthvað er óeðlilegt í þessu máli er það sú framganga.
Nýlega hafa belgísk tollayfirvöld, með fulltingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gert athugasemdir við þessa breyttu tollflokkun íslenskra yfirvalda hvað varðar a.m.k. eina tegund af innfluttum pitsaosti. Tollayfirvöld hafa hafnað því að breyta sinni ákvörðun og viðkomandi fyrirtæki hefur skotið málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem það mun fá flýtimeðferð.
Skýringin á misræminu ófundin
Í ljósi þess að FA hefur ekki fundið dæmi um að verið sé að flytja umræddar vörur inn til Íslands á öðrum tollnúmerum en þær voru skráðar á við útflutning frá ESB, hefur félagið sent fjármálaráðuneytinu fyrirspurn um það hvort ráðuneytið sé einhverju nær um hvað útskýri það misræmi í hagtölum, sem Erna Bjarnadóttir dregur sínar stóru ályktanir af. FA hefur ekki fengið svar við þeirri fyrirspurn.
Mjólkursamsalan virðist sjá ofsjónum yfir allri samkeppni sem fyrirtækið fær. Með því að þrýsta á stjórnvöld að breyta tollflokkun á pitsaostum er fyrirtækið að reyna að tryggja sér aukin viðskipti, af því að matvælafyrirtæki – sem framleiða ekki bara pitsur heldur líka t.d. samlokur, skyndirétti o.fl. – ráða ekki við að kaupa innfluttan pitsaost með ofurtolli og neyðast til að leita til MS. Það kaldhæðnislega er hins vegar að MS býður ekki neina sambærilega vöru, þ.e. ost sem inniheldur jurtafitu og hentar fyrir vikið betur í pitsur og ýmsa aðra rétti.
FA telur það mjög miður að talsmaður Mjólkursamsölunnar skuli ganga svo langt í sinni hagsmunagæslu fyrir það fyrirtæki að væna keppinautana um svindl og lögbrot og byggja þær fullyrðingar á mjög hæpnum ályktunum. Starfshópur fjármálaráðherra sem hóf skoðun á misræminu benti á að vandamálið væri að hluta til tæknilegt og sneri frekar að gæðum gagna sem fylgja vörum í milliríkjaviðskiptum en að um eitthvert misferli væri að ræða.