FA varar við afnámi samkeppnismats

09.02.2016

IMG_6490Samkvæmt drögum að frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um opinber innkaup á að fella út úr lögunum ákvæði um svokallað samkeppnismat, sé opinberri stofnun heimilað að bjóða út innkaup í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Félag atvinnurekenda geldur varhug við þessari breytingu og hefur rökstutt það í umsögn um frumvarpsdrögin, sem hefur verið send fjármálaráðuneytinu.

Að tillögu Samkeppniseftirlitsins
Ákvæðin um samkeppnismat komu inn í lögin um opinber innkaup árið 2011, að tillögu Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt því skal ekki fara í útboð í öðru ríki EES nema fyrir liggi að EES-reglur um opinber innkaup hafi verið leiddar í lög í viðkomandi ríki og að „ástæða sé til að ætla að innkaup í ríkinu muni þjóna hagkvæmni eða virkri samkeppni og öðrum lögmætum sjónarmiðum við opinber innkaup.“ Innkaupin skulu ekki fara fram nema Samkeppniseftirlitið staðfesti samkeppnismat innkaupastofnunar.

Samkeppniseftirlitið taldi að heimild til opinberra innkaupa í öðru EES-ríki gæti nýst í þágu virkrar samkeppni hérlendis í sérstökum undantekningartilvikum. Hins vegar gæti hún í öðrum tilvikum verið til þess fallin að raska samkeppni. Í umsögn stofnunarinnar um breytingar á lögunum um opinber innkaup árið 2011 kom fram að hætta væri á að íslensk fyrirtæki hefðu einfaldlega ekki bolmagn til að taka þátt í svo umfangsmiklu útboði erlendis. Afleiðingin gæti þá orðið sú að íslenskur markaður fyrir viðkomandi vörur minnkaði og það gæti leitt til hærra vöruverðs og lakari þjónustu við aðra kaupendur en hið opinbera. Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað afstöðu sína í nýrri umsögn um frumvarpsdrögin. Þar er gagnrýnt að fullyrt sé án rökstuðnings í greinargerð með frumvarpinu að ákvæðin um samkeppnismat hafi ekki reynst vel. Samkeppniseftirlitið bendir hins vegar á að aðeins einu sinni hafi reynt á ákvæðið og í umrætt sinn hafi útboðið gengið snurðulaust.

Innkaupsverð segir hálfa söguna
Í umsögn FA er tekið undir sjónarmið Samkeppniseftirlitsins. „Sérstök áhersla er lögð á að nauðsynlegt er að taka alla þætti inn í mat á hagkvæmni í innkaupum. Innkaupsverðið eitt og sér segir aðeins hálfa söguna. Að ýmsu þarf að hyggja, t.d. gengisbreytingum, almennum greiðslufresti birgða, vaxtamun og vísitöluhækkunum. Skoða þarf hvernig fara á með utanumhald vörunnar, flutning, gæðaeftirlit, fræðslu, lagerhald, dreifingu, kvartanir, vöruskil, viðgerðir o.fl. Slíkt utanumhald og umsýsla er ekki ókeypis en óljóst getur verið hver á að sjá um hana og bera þann kostnað þegar skipt er við fyrirtæki sem verða hlutskörpust í útboðum opinberra innkaupastofnana í öðrum ríkjum,“ segir í umsögninni.

Þá er bent á að vilji íslenskt fyrirtæki bjóða í verk, þjónustu eða vöru fyrir íslenskan opinberan aðila sem tekur þátt í útboði í mun stærra ríki, þurfi umrætt fyrirtæki að vera í stakk búið að útvega ótilgreindum fjölda erlendra opinberra aðila sama verk, þjónustu eða vöru. „Sem dæmi má taka lítið fyrirtæki í prentþjónustu sem vill selja opinberri stofnun hér á landi ljósritunarpappír. Fyrirtækið þarf þá að vera reiðubúið að selja margfalt stærri og fleiri stofnunum í öðru ríki pappír. Ljóst er að fá ef einhver fyrirtæki hér á landi geta staðið undir slíkri kröfu enda eru íslensk fyrirtæki alla jafna smærri en erlend fyrirtæki og afkastageta þeirra minni. Hafa verður í huga að Ísland er fámenn og strjálbýl eyja langt úti í Atlantshafi. Af því leiðir að kostnaður við innflutning og útflutning er mun hærri en í flestum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá eiga þeir sem stunda viðskipti á Íslandi jafnan mikið undir því að selja vöru sína og þjónustu til hins opinbera enda er ríkið stór viðskiptavinur og í sumum tilvikum sá eini. Við þau viðskipti verður oft til stærðarhagræðing á innanlandsmarkaði sem neytendur í heild njóta góðs af. Verði hinu opinbera veitt ótakmörkuð heimild til að færa viðskipti sín til útlanda er ljóst að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki sem tekið hafa þátt í opinberum útboðum munu eiga mjög erfitt uppdráttar,“ segir í umsögn FA.

Ekki í samræmi við tilskipunina
Með frumvarpi fjármálaráðherra á að leiða í lög tilskipun Evrópusambandsins frá 2014 um opinber innkaup. FA telur að fyrirhuguð breyting á lögunum sé ekki í samræmi við tilskipunina og ákvæði hennar standi ekki í vegi fyrir því að ákvæðið um samkeppnismat standi óbreytt í lögunum.

Hamlar ekki þátttöku í erlendum útboðum
Í Fréttablaðinu 18. janúar síðastliðinn var því haldið fram af hálfu talsmanns Landspítalans að ákvæðið um samkeppnismat í lögunum um opinber innkaup hamlaði þátttöku spítalans í lyfjaútboðum erlendis, sem sparað gætu háar fjárhæðir. Í umsögninni hafnar FA því alfarið að ákvæðið útiloki slíkt. Vísað er til ummæla forstjóra Ríkiskaupa í sömu frétt, en hann sagði þar: „Við höfum aðstoðað aðrar ríkisstofnanir við að fara í sameiginlegt útboð með öðrum þjóðum og það hefur gengið ágætlega. Það er mikilvægt að stofnanir láti reyna á þetta áður en þær ákveða að þetta hamli þeim í að spara fjármagn hins opinbera.“

Margt jákvætt í drögunum
Margt annað í frumvarpsdrögunum er jákvætt að mati FA. Þar má nefna að heimilað er að skipta upp samningum um opinber innkaup, sem auðveldar aðgang smærri fyrirtækja að viðskiptum, að ferlið við útboð verður einfaldað verulega með nýjum reglum um hæfislýsingu bjóðenda, sem einnig kemur smærri fyrirtækjum til góða og taka á upp rafræn útboð og innkaup í auknum mæli. Þetta er í samræmi við tillögur FA um opinber innkaup, sem settar hafa verið fram undir merkjum Falda aflsins.

Sama má segja um þau ákvæði frumvarpsins sem gera ráð fyrir að lögin um opinber innkaup og viðmiðunarfjárhæðir þeirra taki til sveitarfélaganna jafnt og ríkisins. Hins vegar gagnrýnir félagið hækkun viðmiðunarfjárhæða, sem að sögn er til að koma til móts við sveitarfélögin. FA bendir á að hækki viðmiðunarfjárhæðir úr hófi fram náist ekki það markmið laganna að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni, þar sem stór hluti innkaupa sveitarfélaganna nái ekki þeim fjárhæðum. „Það er fyrirtækjum sem og hinu opinbera til hagsbóta að viðmiðunarfjárhæðir séu lægri þannig að sem flest innkaup hins opinbera fari í útboð enda er það til þess fallið að fleiri fái tækifæri til að koma með tilboð og þar með tryggja hinu opinbera hagstæðustu kjörin,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um frumvarpsdrögin

Tillögur FA um opinber útboð

Nýjar fréttir

Innskráning