Fimm af tólf stærstu sveitarfélögum landsins munu lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á næsta ári, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana, sem eru nú alls staðar komin fram, eða samþykktri áætlun. Víðast hvar hækka þó tekjur sveitarfélaganna af atvinnueignum drjúgt umfram verðbólgu. Tvö sveitarfélög lækka álagningarprósentu á íbúðarhúsnæði en sjá ekki ástæðu til að gera það fyrir atvinnuhúsnæði. Sérstaða Reykjavíkurborgar meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eykst ef eitthvað er, en borgin innheimtir umtalsvert hærra hlutfall af fasteignamati atvinnuhúsnæðis í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélögin. Þetta er á meðal niðurstaðna úttektar Félags atvinnurekenda á fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaganna, sem sjá má í töflunni hér að neðan (smellið til að stækka töfluna).
Sjá má að Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta verulegum hækkunum á fasteignamati fyrir árið 2022. Mest er lækkunin í Vestmannaeyjum, eða 0,1 prósentustig, sem veldur því að Vestmannaeyjar eru eina sveitarfélagið sem lækkar tekjur sínar af atvinnueignum milli ára.
Þrátt fyrir lækkanir hjá sumum sveitarstjórnum má sjá að mörg sveitarfélög auka tekjur sínar af atvinnuhúsnæði drjúgt umfram verðbólgu (sem er 4,7% undanfarna sex mánuði). Mest er þó hækkunin hjá sveitarfélögum sem ekki hreyfa skattprósentuna; tæp 11% í Árborg, 8,7% á Akranesi og 8% í Fjarðabyggð og á Seltjarnarnesi. Síðastnefnda sveitarfélagið nýtur þó þeirrar sérstöðu að hafa um árabil haft langlægsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði meðal fjölmennari sveitarfélaga.
Sérstaða Reykjavíkurborgar fer vaxandi
Ef horft er til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega, vex sérstaða Reykjavíkurborgar meðal sveitarfélaga þar, en borgin innheimtir umtalsvert hærra hlutfall fasteignamats í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélögin, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Allt þar til í ár innheimti Reykjavík hæsta lögleyfða skatthlutfallið, eða 1,65%.
Þokast í rétta átt
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að það séu vissulega vonbrigði að fleiri sveitarfélög hafi ekki lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði. Það eigi ekki síst við um Reykjavíkurborg, sem leggi skatt á meirihluta verðmætis atvinnuhúsnæðis í landinu. „Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum, með hækkandi fasteignamati, fengið gífurlegar fjárhæðir í formi hærri skatta á atvinnuhúsnæði. Á árunum 2015-2020 hækkuðu skattgreiðslur fyrirtækjanna í landinu til sveitarfélaga vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um 68%, eða 11,5 milljarða. Nú þegar atvinnulífið er að reyna að ná sér á strik eftir eina dýpstu kreppu síðustu ára er alveg fráleitt að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist enn. Einkum og sér í lagi í ferðaþjónustu eru mörg dæmi um að atvinnurekendur hafi litlar eða einfaldlega engar tekjur af fasteignum sínum, en þeim er samt gert að borga af þeim síhækkandi skatt,“ segir Ólafur.
Hann bendir þó á að víða þokist í rétta átt. „FA hóf baráttu fyrir lækkun fasteignaskatta á fyrirtæki árið 2016, enda var skattbyrði fyrirtækja þá byrjuð að þyngjast verulega vegna hækkana á fasteigamarkaði. Félagið hefur sent sveitarfélögum ítrekuð erindi og áskoranir, síðast í júní, og hvatt þau til að mæta hækkunum fasteignamats með því að lækka álagningarprósentu. Þegar við hófum þessa vegferð innheimtu flest sveitarfélög lögleyfðan hámarksskatt, 1,65%, en síðan hafa tíu af tólf stærstu sveitarfélögunum lækkað álagningarhlutfallið.“
Eins og sjá má í töflunni hér til hliðar er Fjarðabyggð það eina af stærri sveitarfélögunum sem enn innheimtir hæsta leyfilegan skatt. Á Seltjarnarnesi hefur skattprósentan ekki breyst, en hún var og er sú langlægsta hjá stærri sveitarfélögum. Mesta hlutfallslega lækkunin frá 2016 er í Hafnarfirði og á Akranesi, en hvorugt sveitarfélagið lækkar þó skattinn fyrir árið 2022.
Þyngri skattbyrði dregur úr getu til að standa undir launum
Í áskorun, sem FA sendi sveitarfélögunum í júní, segir að áframhaldandi þynging á skattbyrði fyrirtækjanna vegna húsnæðis dragi mátt úr atvinnulífinu, seinki efnahagsbatanum eftir heimsfaraldurinn og skerði getu fyrirtækjanna til að standa undir launagreiðslum sem um var samið í lífskjarasamningunum og eru grundvöllur útsvarstekna sveitarfélaganna.
„Stjórn FA telur að hér verði hvert og eitt sveitarfélag að sýna ábyrgð og gera breytingar á sinni álagningarprósentu þannig að hækkanir á fasteignasköttum skaði ekki atvinnulífið í landinu meira en orðið er. FA skorar jafnframt á sveitarfélögin að taka upp viðræður hið fyrsta við ríkisvaldið um breytingar á þessu fráleita kerfi þar sem skattgreiðslur af húsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats og taka þannig sjálfkrafa hækkunum, án nokkurs tillits til gengis atvinnulífsins að öðru leyti,“ sagði í áskorun stjórnar FA.
Fasteignaskattar 2022 – talnaefni í excel