Félag atvinnurekenda fagnar í umsögn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins áformum um að afnema einkarétt Íslandspósts á dreifingu léttari bréfa og efla samkeppni á póstmarkaði. Félagið bendir hins vegar á að til þess að svo megi verða, þurfi að svara spurningum um uppruna þeirra fjármuna, sem á undanförnum árum hafi farið í mikla uppbyggingu á samkeppnisrekstri Íslandspósts. Jafnframt þurfi að birta, í samræmi við lög og reglur, afkomu einstakra rekstrarþátta Íslandspósts.
Ráðuneytið hefur kynnt drög að frumvarpi um afnám einkaréttar Íslandspósts, en þess í stað verði alþjónusta á óhagkvæmum markaðssvæðum fjármögnuð með framlagi úr ríkissjóði.
Hvaðan koma peningarnir í samkeppnisrekstri ÍSP?
FA fagnar eins og fyrr segir þessum áformum, en ítrekar gagnrýni sína á fyrri frumvarpsdrög svipaðs efnis; að ótímabært sé að leggja frumvarp fyrir Alþingi nema svarað sé ákveðnum grundvallarspurningum. FA hefur bent á að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hefur á undanförnum árum varið háum fjárhæðum í fjárfestingar í skyldum og óskyldum rekstri, í samkeppni við einkaaðila. Liggja þurfi fyrir hver var uppruni þess fjármagns sem fór í þær fjárfestingar og hvort aðskilnaður einkaréttarhlutans og samkeppnisrekstrar hafi verið í samræmi við lög og reglur. „Að mati FA er nauðsynlegt að botn sé fenginn í þau mál áður en einkarétturinn er afnuminn og Íslandspóstur í framhaldinu seldur. Annars er augljóslega vitlaust gefið við einkavæðinguna og hætta á að nýjum eigendum verði afhent fyrirtæki með mikla og ósanngjarna meðgjöf í samkeppni við keppinauta sína,“ sagði í fyrri umsögn FA.
Engin tilraun til að meta áhrif á samkeppni
FA átelur að í greinargerð hinna nýju frumvarpsdraga skuli þessi þungamiðja í gagnrýni FA ekki vera dregin fram, þegar farið er yfir umsagnir hagsmunaaðila um fyrra frumvarp. Jafnframt gagnrýnir félagið harðlega að í greinargerðinni sé engin tilraun gerð til að leggja mat á áhrif frumvarpsins á samkeppni á þeim fjölmörgu mörkuðum sem Íslandspóstur starfar á, en ríkisfyrirtækið hefur haslað sér völl meðal annars í prentsmiðjurekstri, sölu sælgætis, ritfanga, bóka, leikfanga og minjagripa, flutningsmiðlun, gagnageymslu, sendibílaþjónustu og þannig mætti áfram telja – allt í samkeppni við einkaaðila.
Getuleysi stofnana með ólíkindum
Í umsöfn FA er rifjað upp að fjárlaganefnd Alþingis fékk ekki svör um uppruna fjármagns í samkeppnisrekstri Íslandspósts þegar spurningunni var beint til forsvarsmanna ÍSP og Póst- og fjarskiptastofnunar á fundum nefndarinnar í apríl og maí 2015.
FA hefur beint erindum til innanríkisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar til að hvetja þessar stofnanir til að beita sér fyrir að það verði upplýst hver er uppruni þeirra fjármuna sem fjárfestir hafa verið í samkeppnisrekstri Íslandspósts. Það hefur engan árangur borið. „Það er í raun með ólíkindum að stjórnendur Íslandspósts hafi árum saman getað komið sér hjá því að svara þessari spurningu með því að leggja fram gögn sem sýna með óyggjandi hætti uppruna fjármagns sem fjárfest hefur verið í samkeppnisrekstri. Sömuleiðis er getuleysi ráðuneytisins og annarra opinberra stofnana við að leiða fram þessi gögn og upplýsingar með miklum ólíkindum,“ segir í umsögn FA.
Félag atvinnurekenda telur að fá þurfi þessar upplýsingar á hreint áður en frumvarpið er lagt fyrir Alþingi. „Augljóst er að það markmið frumvarpsins að „stuðla að virkri samkeppni“ næst síður ef núverandi einkaréttarhafi nýtur ósanngjarns og ólögmæts forskots á keppinauta sína. Skiptir þá ekki öllu hvort fyrirtækið er áfram í eigu ríkisins eða verður einkavætt, nema hvað í síðara tilvikinu væru sterkar líkur á að verið væri að afhenda einkaaðilum umtalsverð verðmæti, sem stjórnendur Íslandspósts hefðu með ólögmætum hætti fært samkeppnisrekstri fyrirtækisins,“ segir í umsögn FA.
Umdeilanlegar forsendur
FA gagnrýnir að í greinargerð frumvarpsins séu gefnar forsendur sem eru vægast sagt umdeilanlegar. Þannig er vísað til þess að með minnkandi póstmagni geti einkaréttur ekki lengur staðið undir kostnaði við að viðhalda alþjónustu miðað við óbreytta þjónustu. Þá segir í greinargerðinni að rekstur Íslandspósts hafi verið „í járnum“ undanfarin ár og stjórnendur fyrirtækisins unnið að undirbúningi fyrir opnun markaða með því að hagræða í rekstri, m.a. með því að draga úr þjónustu, loka afgreiðslustöðum og fækka starfsfólki.
„Hér virðist skautað býsna létt yfir ýmsar staðreyndir mála. Í fyrsta lagi hefur afkoma af einkaréttarstarfsemi Íslandspósts, þ.e. dreifingu hefðbundins bréfapósts undir 50 grömmum, verið ágæt undanfarin ár, enda hefur fyrirtækið getað sótt nánast sjálfkrafa hækkanir á gjaldskrá sinni innan einkaréttar til Póst- og fjarskiptastofnunar, með tilvísun til samdráttar í fjölda bréfa og hækkandi kostnaðar. Á sama tíma hefur afkoma af samkeppnisrekstri verið afleit, eins og sýnt er fram á í minnisblaði Fjárstoðar ehf., sem unnið var fyrir Félag atvinnurekenda og Póstmarkaðinn og ráðuneytið hefur undir höndum,“ segir í umsögn FA.
„Á sama tíma og verðskrár innan einkaréttar hafa hækkað um tugi prósenta, meðal annars með vísan til hækkandi launakostnaðar, hafa verðskrár Íslandspósts fyrir samkeppnisþjónustu hækkað lítið sem ekkert. Þannig benti FA á það fyrr á þessu ári að einkaréttarþjónusta hefði hækkað um 62,5% frá því í júlí 2012, en á sama tíma hefði gjaldskrá fyrir dreifingu fjölpósts, þar sem Íslandspóstur á í samkeppni, ekki hækkað um krónu. Er dreifikerfið þó hið sama og kostnaðarliðirnir þeir sömu að stærstu leyti. Einkarekin fyrirtæki, sem dreifa fjölpósti, hafa ekki getað haldið verðskrám sínum óbreyttum sökum mikilla kjarasamningsbundinna hækkana.“
Smellið á myndina til að stækka.FA bendir á að skýrar vísbendingar séu um gífurlegan afslátt Íslandspósts frá þessari verðskrá, jafnvel upp á 60-70%. Verið sé að veita kaupendum fjölpóstsendinga mun meiri afslátt en keppinautar Íslandspósts njóta hjá fyrirtækinu, sem brýtur þvert gegn ákvæðum sáttarinnar við samkeppnisyfirvöld. Flest bendi til að fjölpóstþjónusta Íslandspósts sé rekin með verulegu tapi.
FA bendir á að hagræðingaraðgerðir Íslandspósts hafi fyrst og fremst komið niður í einkaréttarþjónustunni, þ.e. dreifingu bréfapósts út um land. Hins vegar hafi verið ráðist í gríðarlegar fjárfestingar í samkeppnisþjónustunni til að gera ríkisfyrirtækið betur í stakk búið að keppa við einkaaðila. Einkavæddur Íslandspóstur myndi jafnframt njóta þeirrar meðgjafar. „Félag atvinnurekenda telur að ráðuneytið þurfi í raun að skýra sérstaklega hvers vegna það fjallar með jafnvillandi og brotakenndum hætti um rekstur og afkomu Íslandspósts í greinargerð með frumvarpi sem hefur það markmið að „stuðla að virkri samkeppni“,“ segir í umsögn FA.
Íslandspóstur líklegur til að verða áfram markaðsráðandi
FA telur að ráðuneytið þurfi að leiða fram margvísleg gögn og upplýsingar sem varpa skýrara ljósi á rekstur og afkomu Íslandspósts og þá forgjöf, sem fyrirtækið hefur fengið í samkeppni á póstmarkaði af tekjum, sem því voru skapaðar með lögbundu einkaleyfi. „Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins eru fyrrverandi einkaleyfishafar enn í markaðsráðandi stöðu í mörgum nágrannalöndum þar sem einkaréttur í póstþjónustu hefur verið afnuminn. Engin ástæða er til að ætla að það verði öðruvísi á Íslandi. Þeim mun mikilvægara er að draga fram þær upplýsingar og svara þeim spurningum sem fjallað hefur verið um hér að ofan,“ segir í umsögn FA.