Ferlið sem fyrirtæki þurfa að fara í gegnum til að öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu er flókið og tímafrekt, en vinnan skilar langtímaávinningi umfram það að tryggja jöfn laun kynjanna. Þetta var á meðal þess sem fram kom á félagsfundi FA um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu í morgun.
Á fundinum fór Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, yfir jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn eiga að hafa hlotið vottun eða staðfestingu fyrir lok ársins, með þeirri undantekningu að jafnlaunastaðfesting stendur fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn til boða. Fram kom á fundinum að jafnlaunastaðfestingin er einfaldara og ódýrara ferli, sem krefst ekki aðkomu vottunarstofu, en kostar engu að síður mikla vinnu og fyrirhöfn.
Langtímasparnaður með betra launakerfi
Falasteen Abu Libdeh, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Ráðs, sem hefur aðstoðað fyrirtæki að undirbúa bæði jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, ræddi um þann ávinning sem fyrirtæki hafa af jafnlaunavottunar- eða staðfestingarferlinu. Hún sagði að í ferlinu fælust t.d. tækifæri til samræmingar í starfsmannamálum, að skýra t.d. starfsheiti og starfslýsingar. Fyrirtæki öðluðust skýrari sýn á starfsmannamálin, kröfur og verkefni í hverju starfi fyrir sig. Betra launakerfi gæfi færi á að rökstyðja allar launaákvarðanir, sem oft leiddi til langtímasparnaðar vegna þess að huglægum skekkjum við ákvörðun launa fækkaði.
Falasteen sagði að ferlið bætti gegnsæi; bæði stjórnendur og starfsfólk þekkti betur mat á störfum og hvernig launaákvarðanir væru teknar. Þetta yki svo bæði traust og starfsánægju í fyrirtækjunum.
Bryndís upplýsti að fyrirtæki sem áttu að hafa fengið vottun fyrir árslok 2019 fengju á næstunni bréf frá Jafnréttisstofu, þar sem skýrt væri fyrir þeim að brátt kynni að verða gripið til dagsekta gagnvart fyrirtækjum sem ekki hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögunum. Dagsektir geta numið allt að 50 þúsund krónum.
Skoða má glærur Bryndísar og Falasteen hér að neðan.
Glærur Bryndísar
Glærur Falasteen