Lagt til að einfalda skil og endurskoðun ársreikninga minni fyrirtækja

16.09.2015

Falda aflið sýnir sigAtvinnuvegaráðuneytið birti í dag á vef sínum drög að frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga. Þar er meðal annars lagt til að ársreikningaskil minni fyrirtækja verði einfölduð til muna. Ennfremur er lagt til að stærðarmörk vegna krafna um fulla endurskoðun og birtingu ársreikninga verði hækkuð til samræmis við reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að lögð er til ný stærðarflokkun sem nær meðal annars til minnstu fyrirtækjanna, svokallaðra örfélaga. Það eru félög sem fara ekki yfir a.m.k. tvenn eftirtalinna stærðarmarka; eru með minna en 20 milljónir í eignir, minna 40 milljónir í hreina veltu eða færri en þrjú ársverk. Þessi félög, sem eru um 80% íslenskra fyrirtækja, geta skilað einfaldri útgáfu af ársreikningi til ársreikningaskrár, sem byggist á skattframtali félagsins. Slíkan ársreikning þarf hvorki að yfirfara af skoðunarmanni né endurskoða né heldur að láta fylgja með skýrslu stjórnar. „Þetta einfaldar skil fyrir um 80% félaga á Íslandi og minnkar stjórnsýslukostnað þessara félaga verulega. Einnig er vonast til að fleiri félög skili ársreikningum á réttum tíma með þessu fyrirkomulagi. Þetta skapar tækifæri fyrir eftirlitsaðila að einbeita sér að skilum stærri félaga,“ segir í greinargerðinni.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins dugar litlum félögum með á bilinu 20-600 milljóna eignir, 40-1200 milljóna veltu og 3-50 ársverk að láta skoðunarmann yfirfara ársreikning. Meðalstór og stærri félög, sem eru yfir þessum mörkum, þurfa hins vegar fulla endurskoðun.

Í samræmi við tillögur Falda aflsins
Félag atvinnurekenda telur þessar tillögur skref í jákvæða átt, enda koma þær talsvert til móts við tvær tillögur sem félagið hefur gert undir merkjum Falda aflsins. Annars vegar hefur FA lagt til skýrari reglur um opinbera birtingu ársreikninga og hins vegar að sanngjarnari kröfur verði gerðar til endurskoðunar ársreikninga minni fyrirtækja.

„Við fögnum þessum breytingum. Þær eru til marks um vilja ráðherra til að einfalda starfsumhverfi smærri fyrirtækja og nýta þannig það afl sem í þeim býr,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við munum rýna nánar í frumvarpið í heild sinni og koma á framfæri okkar athugasemdum og ábendingum um hvernig megi gera enn betur.“

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning