Margs konar ráðgjöf og fræðsla er í boði fyrir atvinnurekendur sem vilja ráða fólk með skerta starfsgetu í hlutastörf. Þetta kom m.a. fram á félagsfundi FA í morgun, þar sem fjallað var um væntanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfinu, sem gera fólki með skerta starfsgetu fært að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Til þess að færni og þekking þessa hóps nýtist, þarf að koma til fjölgun hlutastarfa hjá fyrirtækjum landsins. Upptaka frá fundinum er í spilaranum hér fyrir neðan.
Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðingur Öryrkjabandalags Íslands, sagði frá þeim breytingum sem eiga að taka gildi 1. september næstkomandi. Breytingarnar eru hugsaðar til að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja. Svokallaður hlutaörorkulífeyrir verður 82% af fullum lífeyri. Þeir sem eru á hlutaörorku fá virknistyrk á meðan þeir eru í virkri atvinnuleit. Frítekjumark fyrir atvinnutekjur verður 250.000 krónur. Einstaklingur sem er á hlutaörorku þarf því að afla sér tekna, t.d. með hlutastarfi, til að fá tekjur sem duga fyrir lágmarksframfærslu.
Margvíslegur ávinningur fyrir fyrirtæki
Í nýja kerfinu er gert ráð fyrir að fólk, sem misst hefur hluta af starfsgetu sinni vegna slysa eða sjúkdóma en býr yfir mikilvægri reynslu og sérfræðiþekkingu, geti snúið aftur á vinnumarkaðinn.
Gunnar benti á að ávinningur fyrir fyrirtæki, sem ráða fólk með skerta starfsgetu, væri margvíslegur. Fyrirtækin fengju m.a. aðgang að fjölbreyttri þekkingu, bættu orðspor sitt og hefðu fjárhagslegan ávinning af, auk þess samfélagslega ávinnings sem fylgdi. Gunnar benti á upplýsingagátt fyrir atvinnurekendur á vef ÖBÍ, en hlekkur á hana er hér neðar á síðunni. Þar eru m.a. svör við algengum spurningum, upplýsingar um mögulega ráðningarstyrki fyrir atvinnurekendur og gátlisti fyrir aðgengi á vinnustöðum.
Ferlið á að vera einfalt og án aukakostnaðar
Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, fjallaði meðal annars um Unndísi, sem er verkfæri eða leiðarvísir sem styður við inngildandi vinnustaðamenningu, með það að markmiði að fjölga hlutastörfum fyrir fatlaða og og fólk með skerta starfsgetu. Markmiðið væri að gera breytingar með tiltölulega einföldum hætti og án aukakostnaðar fyrir atvinnurekendur. „Verkefnið snýst að miklu leyti um viðhorf, að rýna með þessu verkfæri, sem Unndís er, gegnumgangandi viðhorf vinnustaða gagnvart þessu máli, að fólk sem hefur ekki fulla starfsgetu, eigi sín tækifæri og möguleika til jafns við öll önnur að fá störf við hæfi,“ sagði Sara.
Sara sagði Vinnumálastofnun veita öflugan stuðning og ráðgjöf við fyrirtæki í ferlinu. Veitt væri mikil þjónusta til að styðja við breytingar, án endurgjalds fyrir fyrirtækin. Verkefnið ætti ekki að verða yfirþyrmandi og kostnaður við það ekki annar en sá tími, sem væri settur í vinnuna. Í sumum tilfellum fengist endurgreiðsla hluta launa þess einstaklings sem væri ráðinn og þá væri kostur á greiðslum til vinnustaðarins vegna verkefna starfsþjálfa (mentors) sem aðstoðaði starfsmann að ná tökum á starfinu.
Mýta að það sé vesen að ráða fatlaðan einstakling
Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ, sagði frá eigin reynslu af að koma aftur á vinnumarkað eftir að hafa orðið fyrir mænuskaða í slysi. „Með týnda fjársjóðnum á ég við fatlað fólk sem er búið að mennta sig og býr yfir góðri starfsreynslu og hæfni, en fær ekki tækifæri eða starf við hæfi af því að vinnuveitendur eiga til að vera hræddir við að ráða inn fatlaðan einstakling eða halda að það fylgi ráðningunni kostnaður og vesen,“ sagði Sunna Elvira. „Í flestum tilfellum þarf bara að gera einfaldar breytingar, til dæmis að setja upp einn ramp, kaupa hækkanleg eða lækkanleg skrifborð, bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma, hlutastarf eða heimavinnu sem kostar ekki neitt. Þessi mýta, að það sé vesen að ráða inn fatlaðan einstakling, hefur orðið til þess að fullt af hæfileikaríku fólki fær ekki tækifæri til að láta ljós sitt skína og týndi fjársjóðurinn finnst ekki.“
Upplýsingagátt ÖBÍ fyrir atvinnurekendur