Skrifað undir samninga við Rafiðnaðarsambandið

17.12.2022

Félag atvinnurekenda hefur undirritað tvo kjarasamninga við Rafiðnaðarsamband Íslands. Annars vegar er samningur FA og RSÍ vegna rafiðnaðarmanna og hins vegar samningur FA og Sambands íslenskra auglýsingastofa, aðildarfélags FA, við RSÍ og Grafíu, aðildarfélag RSÍ, vegna grafískra hönnuða.

Skrifað undir samning FA/SÍA við RSÍ/Grafíu. Frá vinstri: Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA, Anna Kristín Kristjánsdóttir formaður SÍA og varaformaður FA, Hrönn Magnúsdóttir starfsmaður Grafíu og Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu.

Launabreytingar í samningunum eru sambærilegar þeim sem samið var um við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna fyrr í vikunni. Taxtar hækka um 9,5-10% og önnur laun um 6,75%. Hámarkslaunahækkun getur þó orðið 66.000 krónur á mánuði. Með samningnum er hagvaxtarauka vegna ársins 2022, sem hefði átt að koma til greiðslu 1. maí á næsta ári, flýtt til 1. nóvember og telst hann að fullu efndur.

Lágmarksorlof lengist um dag
Desemberuppbót hækkar og verður 103.000 kr. fyrir fullt starf á árinu 2023. Orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí nk. verður 56.000 krónur miðað við fullt starf. Þá náðist samkomulag um að lágmarksorlof bæði rafiðnaðarmanna og grafískra hönnuða lengist úr 24 dögum í 25.

Sameiginleg nálgun í tollamálum
Jafnframt var í báðum kjarasamningum gerð sama bókun um tollamál og í samningunum við verslunarmenn: „Aðilar sammælast um að óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

Skrifað undir samning við RSÍ vegna rafiðnaðarmanna. Frá vinstri: Ólafur, Anna Kristín, Benóny Harðarson, forstöðumaður kjarasviðs Húss fagfélaganna og Georg starfsmaður kjarasviðsins.

Samningur FA og RSÍ

Samningur FA/SÍA og RSÍ/Grafíu

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning