Stjórnarmyndun og hagur fyrirtækjanna

09.11.2017

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 9. nóvember 2017.

Einföldun regluverks atvinnulífsins er eitt þeirra mála sem eiga heima í nýjum stjórnarsáttmála að mati FA.

Hætt er við að viðræður um stjórnarmyndun, sem fara fram formlega og óformlega þessa dagana, snúist að stórum hluta um hvernig flokkarnir nái í gegn hinum ýmsu kosningaloforðum sínum um aukin fjárútlát úr sjóðum skattgreiðenda í þágu menntunar, innviðauppbyggingar og velferðar. Í kosningabaráttunni virtust margir flokkar hafa lítinn áhuga á að ræða hvað þarf að koma til svo að standa megi undir útgjöldunum. Ef við eigum að hafa efni á öflugum innviðum og meiri velferð, þarf að tryggja starfsskilyrði öflugs atvinnulífs, sem skapar aukin verðmæti til framtíðar. Hækkun skatta á fólk og fyrirtæki skapar ekki hvata til fjárfestingar eða atvinnusköpunar. Jákvæðir hvatar fyrir atvinnulífið, sem stuðla að vexti og fjölgun starfa, skila sér hins vegar í auknum skatttekjum ríkissjóðs.

Í viðleitni til að fá stjórnmálaflokkana til að beina sjónum að hagsmunamálum atvinnulífsins og þar með undirstöðu velferðarinnar, sendi Félag atvinnurekenda öllum þingflokkum bréf í vikunni, þar sem þeir eru hvattir til að gefa hagsmunum fyrirtækjanna gaum, ekki sízt þeirra minni og meðalstóru sem eru hryggjarstykkið í atvinnulífi landsmanna.

Aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum
Í bréfi Magnúsar Óla Ólafssonar, formanns FA, til flokkanna er efst á blaði aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum til að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Stöðugleiki, þar sem verðbólgumarkmið nást og vextir halda áfram að lækka, er stærsta hagsmunamál fyrirtækjanna. Það má ekki missa sjónar á þeim markmiðum sem hafa verið sett um afkomu ríkissjóðs í þágu þess að uppfylla kosningaloforðin.

FA minnir flokkana sömuleiðis á loforð, sem þeir hafa flestir gefið undanfarin ár, um að hækkanir á tryggingagjaldi fyrirtækja eftir hrun verði teknar til baka. Enn vantar 1,5 prósentustig upp á að tryggingagjaldið sé sama hlutfall af launagreiðslum og það var fyrir hrun. Réttlætingin fyrir hækkuninni á sínum tíma, stóraukið atvinnuleysi, er löngu horfin og ríkissjóður notar nú tekjur af tryggingagjaldinu til að fjármagna önnur útgjöld. Tryggingagjaldið leggst sérstaklega þungt á smærri fyrirtæki og stendur í raun í vegi fyrir því að þau fjölgi störfum eða hækki laun.

Einföldun regluverks og eftirlitsgjöld
Félag atvinnurekenda vekur sömuleiðis athygli á málum, sem hafa þokazt áleiðis í tíð síðustu ríkisstjórnar og ekki mega gleymast þótt nú taki nýtt fólk við völdum. Þannig hvetur FA flokkana til að halda áfram vinnu við að einfalda regluverk atvinnulífsins. Félagið leggur áherzlu á að fylgt verði eftir tillögum í nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytisins um að komið verði upp verklagi þar sem tilgreint verði í greinargerðum með frumvörpum til innleiðingar EES-reglna hvaða ákvæði varði reglurnar beinlínis, hvaða ákvæði gangi lengra en þær kveða á um og þá af hvaða ástæðum og hvaða svigrúm sé til að haga innleiðingu þannig að hún verði minna íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Gangi þetta eftir, mun það gera reglugerðarfrumskóginn talsvert auðrataðri fyrir íslenzk fyrirtæki.

Fyrr á árinu gaf FA út skýrslu um eftirlitsgjöld, sem ríkið leggur á fyrirtæki. Þar er víða pottur brotinn; gjöldin endurspegla ekki raunkostnað við eftirlitið og eru lögð á með ólögmætum hætti. Málflutningur FA í þessu máli náði eyrum fráfarandi fjármálaráðherra, enda eru það sameiginlegir hagsmunir ríkissjóðs og fyrirtækjanna að eftirlitsgjöld séu lögð á með lögmætum hætti og forðast megi málsóknir, sem iðulega hafa endað með því undanfarin ár að ríkið þarf að endurgreiða ólögmæt eftirlitsgjöld. Þessari vinnu þarf líka að halda áfram.

Einfaldara vsk-kerfi
FA hvetur sömuleiðis til þess að haldið verði áfram á þeirri braut að einfalda virðisaukaskattskerfið. Jafnt út frá tekjuöflunar- og hagkvæmnissjónarmiðum er æskilegt að virðisaukaskattur sé lagður á í einu þrepi sem yrði verulega lægra en efra þrepið er í dag, undanþágum sé fækkað þannig að skattstofninn breikki og skattheimtan sé einföld og skilvirk.

FA tiltekur mörg önnur mál í bréfi sínu til flokkanna og hvetur þannig til aðgerða til að tryggja betur frjálsa samkeppni og afnema samkeppnishömlur á mörgum sviðum í atvinnulífinu. Liður í því er að ljúka endurskoðun búvörusamninganna í breiðri sátt bænda, neytenda og atvinnulífs og gera breytingar á stuðningskerfi landbúnaðarins og tollvernd, sem tryggi að samkeppnislögmálin séu virkjuð til fulls í þessari atvinnugrein eins og öðrum.

FA hvetur stjórnmálaflokkana til að setja fókus á hagsmunamál fyrirtækjanna og setja eitthvað meira en almennt orðaðar yfirlýsingar um öflugt atvinnulíf í nýjan stjórnarsáttmála.

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning