Víða pottur brotinn í eftirlitsgjöldum ríkisins

04.04.2017

Gjöld sem lögð eru á atvinnulífið vegna opinbers eftirlits nema hundruðum. Samtals eru um sextíu gjaldtökuheimildir vegna eftirlitsgjalda í lögum og er hver og ein þeirra útfærð með reglugerðum eða gjaldskrám, sem geta kveðið á um tugi gjalda.

Samkvæmt nýrri skýrslu Félags atvinnurekenda er víða pottur brotinn við álagningu og innheimtu eftirlitsgjalda. Gjaldtökuheimildir í lögum eru oft óljóst orðaðar, ekki síst um kostnaðarliðina sem má leggja til grundvallar gjaldtöku. Skýrar heimildir koma í veg fyrir deilumál um gjaldtökuna og hindra stjórnvöld í að ganga of langt í henni.

Sundurliðun kostnaðar heyrir til undantekninga
Það heyrir til algerra undantekninga að opinber gögn liggi fyrir um sundurliðun kostnaðar vegna álagningar eftirlitsgjalda. Slík sundurliðun er hins vegar almennt nauðsynleg svo að fyrirtæki geti áttað sig á forsendunum fyrir fjárhæð gjaldsins og hvort innheimtan sé lögmæt. Að sama skapi heyrir til undantekninga að eftirlitsaðilar veiti upplýsingar um hvaða ástæður liggi að baki hækkun gjalda.

Í mörgum tilvikum hefur ráðherra viðkomandi málaflokks ekki sinnt þeirri skyldu sinni að setja reglur um tíðni og umfang eftirlits. Eftirlitsstofnanir geta þá ráðið því sjálfar og þar með kostnaði fyrirtækja af eftirlitinu.

Vantar skýrari reglur um gjaldtöku faggiltra aðila

Frá fundi FA þar sem skýrslan var kynnt

Að mati FA er nauðsynlegt að setja miklu skýrari reglur um gjaldtöku faggiltra aðila, sem falið er að sinna opinberu eftirliti. Þar sem ekki liggja fyrir skýrar reglur, skortir gagnsæi um hvaða hlutverk eða verkefni er heimilt að framselja til faggiltra aðila. Að sama skapi hafa ekki verið settar neinar nánari reglur um greiðslu kostnaðar vegna starfa slíkra aðila þrátt fyrir að framkvæmdin sé með þeim hætti að eftirlitsskyld fyrirtæki beri þann kostnað. Matís, sem annast ýmislegt opinbert eftirlit og rannsóknir, birtir til dæmis ekki gjaldskrá opinberlega og tókst FA ekki að fá slíka gjaldskrá afhenta frá félaginu.

Í gjaldskrám heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna er ekki mælt fyrir um fjárhæð gjalda vegna sýnatöku og rannsókna á sýnum hjá faggiltum aðilum þrátt fyrir að ljóst sé að heilbrigðiseftirlitin nýti sér þjónustu slíkra aðila. Þannig er ómögulegt fyrir eftirlitsskyld fyrirtæki að átta sig fyrirfram á hvað slíkar rannsóknir muni kosta og er þessi framkvæmd í ósamræmi við þær kröfur sem gera verður til álagningar og innheimtu eftirlitsgjalda á vegum hins opinbera.

Margfaldur munur á kostnaði milli landshluta
Rannsóknarkostnaður milli sýna virðist einnig vera mjög mismunandi eftir landshlutum og er næstum því fjórfalt hærri í Reykjavík en á Austurlandi, svo dæmi sé tekið. FA telur að fyrirkomulag þessara mála vegi mjög að réttaröryggi eftirlitsskyldra fyrirtækja, þar sem álagning gjalda er með öllu ófyrirsjáanleg og ekki er hægt að ganga úr skugga um réttmæti gjaldtökunnar þar sem tilgreiningu á kostnaðarliðum og fjárhæðum gjalda skortir með öllu.

Tillögur FA til úrbóta
FA setur fram í skýrslunni ýmsar tillögur til úrbóta. Þar á meðal eftirfarandi:

  • Gjaldtökuheimildir verði endurskoðaðar með tilliti til sjónarmiða um skýrleika.
  • Eftirlitsgjöld séu ekki í formi skatta sem leggjast á veltu fyrirtækja.
  • Eftirlitsskyldum fyrirtækjum séu veittar auknar upplýsingar um grundvöll einstakra gjalda og tilefni hækkana á gjöldum. Ekki verði heimilt að innheimta eftirlitsgjöld af fyrirtækjum nema sundurliðun þeirra og útreikningur hafi verið birt opinberlega.
  • Settar verði skýrari reglur um tíðni og umfang opinbers eftirlits. svo það sé ekki eftirlitsstofnunum í sjálfsvald sett.
  • Settar verði skýrari reglur um störf faggiltra aðila og gjaldtöku vegna þjónustu þeirra þegar þeir sinna opinberu eftirliti.

Skýrslan kynnt á fundi
Skýrsla FA var kynnt á vel sóttum félagsfundi í morgun. Hér að neðan má nálgast glærur Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra og Ingu Skarphéðinsdóttur lögfræðings frá fundinum og upptöku af fundinum á Facebook-síðu FA.

Eftirlitsgjaldaskýrsla FA

Upptaka af fundinum á Facebook

Eru eftirlitsgjöld ríkisins lögmæt, sanngjörn og hagkvæm? Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA

Hvernig geta félagsmenn FA nýtt sér niðurstöður skýrslunnar? Inga Skarphéðinsdóttir lögfræðingur FA

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning