Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 28. desember 2021
Árið 2021 náði íslenzkt atvinnulíf viðspyrnu á ný eftir eina dýpstu efnahagskreppu undanfarinna áratuga, sem fylgdi heimsfaraldri kórónuveirunnar. Horfurnar eru að mörgu leyti bjartar fyrir nýtt ár, en um leið er óvissan um þróun faraldursins og áhrif hennar mikil.
Áskoranir heimsfaraldursins
Ein ástæða þess að atvinnulífið náði nokkuð góðri viðspyrnu voru stuðningsaðgerðir stjórnvalda, sem gögnuðust mörgum fyrirtækjum vel, ekki sízt þeim minni og meðalstóru. Félag atvinnurekenda hefur verið í hópi þeirra sem hafa bent á að ekki sé tímabært að þær renni allar sitt skeið um áramótin, heldur þurfi að framlengja einhver úrræði í ljósi þess að líklegt er að áfram þurfi samkomutakmarkanir og hömlur á landamærum í baráttu við faraldurinn. Raunar er það ekki bara ástandið á Íslandi sem hefur mikil áhrif á gengi fyrirtækja, ekki sízt þeirra smærri, heldur ekki síður ástandið í markaðslöndum Íslands. Fyrir fyrirtæki jafnt í vöru- og þjónustuútflutningi hafa harðari takmarkanir í nágrannalöndunum þýtt holskeflu afpantana og mikinn missi viðskipta. Ráðherrar hafa látið í það skína að eitthvert framhald verði á úrræðum fyrir ferðaþjónustuna, en fleiri greinar eru hér undir.
Áskoranir í alþjóðlegu aðfangakeðjunni, sem hafa fengið talsverða athygli seinni hluta ársins, eru stórt viðfangsefni fyrir mörg fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum; hvort heldur er innflutningi eða útflutningi. Vegna gífurlegra hækkana á verði hráefna og flutninga hefur alþjóðlegt vöruverð hækkað og Ísland hefur ekki farið varhluta af því. Innlend fyrirtæki hafa þó lagt mikið á sig til að halda innfluttri verðbólgu í skefjum; undir lok ársins mældist verðbólga til að mynda minni en á Evrópska efnahagssvæðinu í heild, sem bendir til að íslenzkum fyrirtækjum hafi gengið ágætlega að halda aftur af verðhækkunum. Þetta verður þó áfram erfið glíma langt fram á nýtt ár.
Eru stjórnvöld með fyrirtækjunum í liði?
Stjórnvöld ættu að sjálfsögðu að vera með fyrirtækjunum í liði að reyna að lækka kostnað og einfalda reglur þannig að betur gangi að halda verðlaginu stöðugu. Það eru þau oft, en það er þó ekki einhlítt. Félag atvinnurekenda hefur t.d. bent á að Alþingi stuðlaði að hækkun á útboðsgjaldi, sem innheimt er af sölu tollkvóta, heimilda til að flytja inn takmarkað magn af tollfrjálsum vörum. Aðgerðin var beinlínis til þess hugsuð að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni frá innflutningi og hefur að sjálfsögðu haft þau áhrif að matarverð er hærra en það þyrfti að vera, einmitt þegar stjórnvöld og fyrirtækin ættu að leggjast á eitt að ná því niður.
Stjórnvöld gætu gripið til fleiri aðgerða til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og stuðla um leið að því að alþjóðlegar verðhækkanir fari síður út í verðlagið. Fyrirheit í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um að einfalda regluverk og lækka skatta fyrirtækja, ekki sízt þeirra minni, hafa enn ekki raungerzt. Fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir að tryggingagjaldið hækki á ný, eftir að hafa verið lækkað tímabundið vegna faraldursins. Það hjálpar ekki til við endurreisn efnahagslífsins.
Þá er ónefnd þróun fasteignaskatta, sem sveitarfélögin leggja á atvinnuhúsnæði. Þeir hækkuðu um tæplega 70% á árunum 2016 til 2020 og hækka enn á næsta ári; stærstu sveitarfélög landsins munu þá auka tekjur sínar af sköttum á atvinnuhúsnæði um 4,3% til 10,8%, jafnvel þótt sum þeirra hafi lækkað álagningarprósentuna. Heiðarlega undantekningin er Vestmannaeyjar, sem lækkar tekjur sínar af atvinnuhúsnæði. Kerfi fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er augljóslega komið út í rugl og brýnt að ná á nýju ári samtali ríkisins, sveitarfélaganna og fyrirtækjanna um eitthvert skynsamlegra kerfi með minni sveiflum.
Félag atvinnurekenda hefur á þessu ári eins og undanfarin ár staðið vaktina í t.d. tollamálum og samkeppnismálum og leitazt við að benda á það sem betur mætti fara. Skilningur stjórnvalda hefur þó verið takmarkaður, með fáeinum undantekningum.
Verður haldið áfram að afnema viðskiptahindranir?
Þannig lögðu stjórnvöld upp í viðræður við Evrópusambandið um endurskoðun á samningi Íslands og ESB um aukið tollfrelsi í viðskiptum með búvörur, á þeim forsendum að búvöruútflytjendur í ESB-ríkjum hafi verið miklu duglegri að nýta sér tækifærin til útflutnings sem samningurinn skapar en íslenzkir búvöruframleiðendur. Þrýstingur frá íslenzkum landbúnaði á að snúa klukkunni til baka og vinda ofan af þeim árangri, sem hefur náðst í aukinni fríverzlun, er umtalsverður. Slík niðurstaða væri reyndar andstæð EES-samningnum, sem kveður á um að ríkin skuli halda áfram að útvíkka fríverzlun með búvörur, og færi líka í berhögg við málefnasamning endurnýjaðs stjórnarsamstarfs, sem kveður á um að „haldið verði áfram að afnema viðskiptahindranir“. Vonandi verður það niðurstaðan fremur en að stigin verði skref til baka.
FA benti líka á mismunun Mjólkursamsölunnar gagnvart innlendum matvælaiðnaði, en einokunarfyrirtækið selur þeim mjólkur- og undanrennuduft á mun hærra verði en erlendir keppinautar þeirra fá hjá fyrirtækinu. MS kemst upp með þetta í skjóli undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og hárra tolla á innflutt mjólkurduft. Stjórnvöld hafa ekkert aðhafzt til að leiðrétta þessa stöðu.
Sama má segja um fáránlega háa tolla á blóm, sem skila t.d. þeirri niðurstöðu að stykkið af íslenzkum túlipana kostar allt að 470 íslenzkar krónur í matvörubúð nú í desember, á sama tíma og danskur túlipani selst á 70 krónur. Á sama tíma og ofurtollar eru lagðir á, anna innlendir blómaræktendur engan veginn eftirspurn. Þetta er staða sem bitnar ekki sízt hart á fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja í blómaverzlun. Fjármála- og atvinnuvegaráðuneytin hafa nú verið að „afla gagna“ um blómatolla í meira en tvö ár og engin leiðrétting fæst á vitleysunni.
Alþingi voru mislagðar hendur við breytingar á tollum á grænmeti í desember fyrir tveimur árum, sem hefur þýtt að reglulega hefur komið upp skortur á ýmsum grænmetistegundum vegna þess að háir tollar eru lagðir á, á sama tíma og lítið eða ekkert er til af innlendri framleiðslu. Keyrði um þverbak síðastliðið haust, þegar ekkert sellerí var til í búðum og lítið af blómkáli og spergilkáli. Eftir að FA og Bændasamtökin tóku höndum saman um að gera tillögu að breytingu á tímabilum tollfrjáls innflutnings, til að koma í veg fyrir að skortur komi upp á næsta ári, tók atvinnuvegaráðuneytið við sér og vonast má til að Alþingi geri breytingar á búvörulögunum fyrir áramót. Á næsta ári þarf hins vegar að nota tímann til að gera nýjan búvörusamning við grænmetisbændur, þar sem áralöng fyrirheit ríkisins um að bæta í beingreiðslur, gegn því að tollar falli niður á fleiri grænmetistegundum, verða vonandi efnd.
Nýr fríverzlunarsamningur við Bretland gengur senn í gildi. FA benti á að við gerð hans hefðu farið forgörðum tækifæri til að útvíkka verulega fríverzlun með búvörur. Bretar buðu stóraukinn tollfrjálsan kvóta fyrir íslenzkt undanrennuduft, sem hefði nýtzt skyrverksmiðju MS í Wales, á móti auknum tollfrjálsum innflutningi brezkra búvara til Íslands. Þessu tilboði var hafnað vegna andstöðu hagsmunaafla í íslenzkum landbúnaði – að því er virðist vegna þess að þau virðast telja að jafnvel án tolla sé íslenzkt undanrennuduft ekki samkeppnisfært á alþjóðamarkaði.
Orðin í stjórnarsáttmálanum um að halda áfram að draga úr viðskiptahindrunum eru falleg, en lítils virði ef sérhagsmunahópar fá ævinlega að ráða því hvort aðgerðir í þá átt verða að veruleika.
Styður ríkið við frjálsa samkeppni?
Ekki vantar heldur fallegu orðin í stjórnarsáttmálanum og víðar um gildi samkeppni fyrir fyrirtæki og neytendur – en þar fer heldur ekki saman hljóð og mynd. FA helgaði aðalfund sinn í ár samkeppninni eftir heimsfaraldur og hvernig nauðsynlegt er að stuðla að því að atvinnulífið vinni sig út úr kreppunni með virkri samkeppni.
Félagið beitti sér eindregið gegn því að endurmenntunarstofnanir háskólanna fengju sérstakan ríkisstyrk til að fara í beina, niðurgreidda samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki undir merkjum sumarnáms. Baráttan gegn undirverðlagðri gjaldskrá Íslandspósts, sem hefur bitnað hart á einkareknum keppinautum, bar nokkurn árangur með breytingu á póstlögunum og nýrri gjaldskrá.
Þá gagnrýndi FA harðlega að landbúnaðarráðherra tæki til greina óskir sérhagsmunaafla um undanþágur frá samkeppnislögum fyrir kjötiðnaðinn í landinu. Miðað við umræðuna um stöðu landbúnaðarins verður áfram full þörf á baráttu gegn slíkum einokunartilburðum á nýja árinu.
Á árinu vakti FA ítrekað athygli á því að áfengislögin væru orðin úrelt og mikil óvissa um réttarstöðu netverzlana, sem sprottið hafa upp. Félagsmenn FA, sem áhuga hafa á að taka þátt í samkeppninni á þessum nýja markaði, vilja eðlilega fá vissu fyrir því að þeir starfi innan ramma laga og reglna. Ítrekuð erindi til stjórnvalda, þar sem farið var fram á að þau skýrðu réttarstöðuna, báru hins vegar lítinn árangur. Aftur á móti taldi dómsmálaráðuneytið að þörf væri á heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar. FA sendi nýjum innanríkisráðherra erindi þar sem skorað var á hann að ráðast í slíka endurskoðun, sem fer vonandi fram á nýju ári.
Faraldurinn og frjálsræðið
Af framangreindu má ráða að gengi íslenzks atvinnulífs á nýja árinu ræðst ekki bara af þróun faraldursins, heldur líka af því að stjórnvöld standi við fallegu orðin um viðskiptafrelsi og samkeppni, sem eru drifkraftar öflugs efnahagslífs. Óhætt er að segja að óvissan um hvort tveggja er talsverð. Við ráðum því ekki hvernig faraldurinn þróast, en við ráðum hins vegar býsna miklu um það hvernig við bregðumst við honum – hvort við notum faraldurinn og afleiðingar hans sem afsökun fyrir samkeppnishömlum og verndarstefnu eða hvort við nýtum krafta samkeppninnar til að vinna okkur út úr þeim vandkvæðum sem faraldurinn hefur skapað.