Starfsmenntasjóður verslunarinnar styrkir fyrirtæki um allt að 90% af kostnaði við fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn aðildarfyrirtækja. Hægt er að leggja saman réttindi fyrirtækisins og starfsmanna þeirra til að fá hærri styrki. Fyrirtæki eiga árlegan rétt upp á þrjár milljónir króna ef þau hafa staðið í skilum við sjóðinn í tólf mánuði samfleytt. Fræðsla og þjálfun skilar sér fljótt í meiri starfsánægju starfsfólks og betri árangri fyrirtækja. Þetta var á meðal þess sem fram kom á félagsfundi FA, „Fræðum og græðum“ sem haldinn var í morgun. Fundurinn var vel sóttur, jafnt í fundarsal FA og á Facebook, þar sem honum var streymt. Hægt er að horfa á upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.
Selma Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í Starfsmenntasjóði verslunarinnar, kynnti möguleika fyrirtækja og starfsmanna á að sækja um styrki í sjóðinn og hversu einfalt er að sækja um styrki á umsóknargáttinni attin.is. Hægt er að sækja um styrki í marga starfsmenntasjóði í einu ef starfsfólk er í mörgum stéttarfélögum. Selma ræddi bæði um styrki vegna námskeiða og fræðslu og verkefnið fræðslustjóri að láni, sem er fyrirtækjum að kostnaðarlausu ef nægilega margir starfsmenn þeirra eiga aðild að stéttarfélögum sem aðild eiga að Áttinni.
Anna Kristín Kristjánsdóttir, einn af stjórnendum og eigendum Hvíta hússins, varaformaður FA og stjórnarmaður í SV, fór yfir reynslu fyrirtækisins af verkefninu fræðslustjóri að láni.
Þá kynntu fulltrúar sex fræðslufyrirtækja innan raða FA fræðsluframboð og nálgun fyrirtækjanna. FA fékk þessi fyrirtæki til að taka saman fræðslu og námsefni með hliðsjón af greiningu á fræðsluþörfum fyrirtækja í FA, sem Attentus vann fyrir félagið. Óhætt er að segja að gríðarleg breidd sé í fræðsluframboði, nálgun og aðferðum og ættu flestir félagsmenn að finna þar eitthvað við sitt hæfi. Mörg fræðslufyrirtækin eru reiðubúin að sérsníða lausnir fyrir fyrirtæki. Hér á vefnum er á einni síðu samantekt á efni frá fyrirtækjunum og hlekkir á vefi þeirra. Við hvetjum félagsmenn eindregið til að kynna sér vel þá kosti sem eru í boði.
Þeir sem kynntu fræðsluframboð sinna fyrirtækja voru Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun, Margrét Reynisdóttir frá Gerum betur, Unnur Magnúsdóttir frá Dale Carnegie, Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Akademias, Skúli Gunnsteinsson frá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum og Aldís Sveinsdóttir og Eydís Eyland Brynjarsdóttir frá Promennt. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA stýrði fundi.
Glærur Selmu – Starfsmenntasjóðurinn og Áttin
Glærur Önnu Kristínar – Fræðslustjóri að láni
Glærur Eyþórs – Þekkingarmiðlun
Glærur Margrétar – Gerum betur
Glærur Unnar – Dale Carnegie
Glærur og erindi Guðmundar – Akademias
Glærur Skúla – NTV
Glærur Aldísar – Promennt