Ávinningur af jafnlaunavottun meiri en umstangið

10.01.2017
Morgunverðarfundur FA var vel sóttur.
Morgunverðarfundur FA var vel sóttur.

Ávinningur fyrirtækja af því að fara í gegnum jafnlaunavottun er meiri en umstangið, um það voru frummælendur á morgunverðarfundi Félags atvinnurekenda sammála.

Á fundinum var meðal annars farið yfir forsögu jafnlaunavottunarinnar, stöðuna varðandi kynbundinn launamun og hvað fyrirtæki þyrftu að gera til að fá jafnlaunavottun.

Verða eftirsóttari vinnustaðir
Einar Mar Þórðarson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, fór yfir jafnlaunastaðalinn og hvað fyrirtæki þyrftu að gera til að innleiða hann. Einar sagði að ávinningur af jafnlaunavottuninni væri til dæmis staðfesting á faglegum vinnubrögðum við mótun launastefnu og góðum stjórnarháttum í fyrirtækinu. Að fá jafnlaunavottun bætti ímynd fyrirtækja og gerði þau að eftirsóttari vinnustað. Þá leiddi vinnan við greiningu starfa í fyrirtækjunum, sem unnin væri til undirbúnings vottuninni, oft til skilvirkari verkaskiptingar, hagræðingar og jafnvel meiri tekna. Ferlið þjappaði stjórnendateymi fyrirtækisins saman.

Einar sagði að flest fyrirtæki rækju sig á hindranir í ferlinu, það færi þó eftir því hvar þau væru stödd varðandi launajafnrétti. Komið gætu upp snúin mál ef sýnt væri fram á mikinn launamun. Þá væru sumir stjórnendur tregir að opna launabókhaldið fyrir vottunarstofum, sem sæju um jafnlaunaúttektir.

Mikil þjálfun í starfsmannamálum og öguðum vinnubrögðum

Anna Kristín Kristjánsdóttir
Anna Kristín Kristjánsdóttir

Anna Kristín Kristjánsdóttir, ráðgjafi og stjórnarmaður hjá Hvíta húsinu og stjórnarmaður í FA, lýsti reynslu fyrirtækisins af því að ganga í gegnum vottunarferlið. Hún sagði að fyrirtækið væri ekki mjög stórt og ekki með sérstakan mannauðsstjóra. Í upphafi hefðu stjórnendur velt fyrir sér hvort auglýsingastofan hefði bolmagn í vinnuna sem jafnlaunavottunin útheimti og stundum hefði verkefnið virst of viðamikið, en á endanum hefði það verið gríðarlegur skóli fyrir fyrirtækið.

Anna  Kristín sagði að á endanum hefði ávinningurinn ekki bara verið staðfesting á því að fyrirtækið greiddi fólki af báðum kynjum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf, heldur líka mikil þjálfun í starfsmannamálum og innleiðing á agaðri vinnubrögðum. Ferlið hefði gefið fyrirtækinu betri fókus á allt það góða í mannauði þess. Með því að skilgreina störf rækilega kæmu ýmsir hnökrar í ljós og um leið tækifæri til úrbóta. Að vottunarferlinu loknu kynnu stjórnendur betur að meta það sem mannauðurinn færir fyrirtækinu.

Anna sagði að vissulega væri ferlið flókið og tímafrekt, en ef úthald og seigla væri fyrir hendi, væri ljós við enda ganganna. Hún sagði að jafnlaunavottunin hefði bætt starfsandann í fyrirtækinu, enda væri starfsfólkið stolt af henni og viðbrögð viðskiptavina hefðu jafnframt verið mjög jákvæð.

VR vill sjá árangur á næstu sex mánuðum

Einar Mar Þórðarson, Ólafía B. Rafnsdóttir, Anna Kristín Kristjánsdóttir og Ólafur Stephensen.
Einar Mar Þórðarson, Ólafía B. Rafnsdóttir, Anna Kristín Kristjánsdóttir og Ólafur Stephensen.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði frá jafnlaunavottun VR, en félagið hefur nú afhent stjórnvöldum verkefnið. Ólafía sagðist hins vegar orðin óþolinmóð að sjá raunverulegan árangur af starfi fjármálaráðuneytisins og fleiri aðila að tilraunaverkefni um jafnlaunavottun og hún vildi að fljótlega yrðu fyrstu jafnlaunamerkin afhent. „Ef meira en sex mánuðir líða án þess að nokkuð gerist, fer VR aftur af stað,“ sagði hún.

Einar upplýsti hins vegar að beðið væri komu Emmu Watson, velgjörðasendiherra UN Women, til landsins, en hún hefði sýnt því áhuga að afhenda fyrstu jafnlaunamerkin.

Stuðningur FA og Starfsmenntasjóðs verslunarinnar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, stýrði fundi. Hann upplýsti í lok fundar að í ljósi fregna af ákvæðum í nýjum stjórnarsáttmála um að gera jafnlaunavottun að lagaskyldu fyrir öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn myndi FA aðlaga ráðgjöf sína fyrir aðildarfyrirtæki og jafnframt myndu FA og VR skoða á vettvangi Starfsmenntasjóðs verslunarinnar hvernig hægt væri að styðja betur við bakið á fyrirtækjum með styrkjum og námskeiðahaldi. Ólafur sagði hins vegar að FA hefði frekar kosið að fyrirtækjunum væri treyst til að hafa sjálf frumkvæði að því að afla sér jafnlaunavottunar.

Glærur Ólafíu

Glærur Einars

Glærur Önnu

Nýjar fréttir

Innskráning