Óvíst að kínverskir ferðamenn snúi aftur fyrr en 2023

27.05.2021
Frummælendur og fundarstjóri á málþinginu. Frá vinstri: Þorleifur Þór Jónsson, Ágúst Elvar Bjarnason, Guðmundur Daði Rúnarsson, Jónína Bjartmarz, Ólafur Stephensen og Jin Zhijian.

Óvíst er að kínverskir ferðamenn snúi aftur til Íslands í sama mæli og fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar fyrr en á þarnæsta ári, að mati verkefnisstjóra hjá Íslandsstofu. Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins í gær, en yfirskrift þess var „Hvenær koma kínversku ferðamennirnir og erum við tilbúin að taka á móti þeim?“ Sjá má upptöku af málþinginu í spilaranum hér að neðan.

Jónína Bjartmarz, formaður ÍKV, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Okkar konur í Kína, setti málþingið og sagði tilgang þess meðal annars að taka stöðuna í framhaldi af fjölmennum fundi um móttöku kínverskra ferðamanna í fyrra, en þar kom fram að margt mætti betur fara svo Kínverjum fyndust þeir velkomnir og öruggir á Íslandi. Kínverskum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað hratt undanfarin ár og voru þeir árið 2019 um 140 þúsund, eða um 7% af ferðamönnum sem sóttu Ísland heim. Jónína sagði að málþinginu væri ætlað að taka stöðuna í undirbúningi fyrir endurkomu kínverskra ferðamanna. Huga þyrfti betur að skilningi á kínverskri menningu í ferðaþjónustu hér. merkingum og upplýsingum fyrir kínverskumælandi ferðamenn og markaðssetningu í Kína.

Jónína sagði það sitt persónulega mat að horfur á komu kínverskra ferðamanna til Íslands hefðu skyndilega versnað til muna sökum erfiðleika í tvíhliða samskiptum ríkjanna vegna ásakana um mannréttindabrot gagnvart úígúrum í Xinjiang-héraði.

75 milljónir reiddust ákvörðun Íslands
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, vék einnig að tvíhliða samskiptum ríkjanna, en þeim hluta ræðu hans voru gerð nokkur skil í Morgunblaðinu í dag. „Nýleg ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar, um að fylgja Evrópusambandinu í refsiaðgerðum gegn Kína, vegna svokallaðra mannréttindabrota í Xinjiang, hefur valdið vandamálum fyrir okkur,“ sagði hann. „Þegar íslenska ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun gaf sendiráð okkar út yfirlýsingu, þar sem varpað er ljósi á heildarmyndina fyrir nærsamfélagið. Af hverju við höfðum ákveðið að setja einstakling á svarta listann okkar. Þessa yfirlýsingu sáu fleiri en 75 milljónir Kínverja á innan við tveimur dögum. 75 milljónir manna. Þið getið ímyndað ykkur athugasemdirnar. Ég hugsa að 99,9% þessa fólks hafi reiðst mikið vegna ákvörðunar íslensku ríkisstjórnarinnar.“

Jin sendiherra sagðist telja að leysa þyrfti úr þessari deilu til að greiða fyrir því að kínverskir ferðamenn tækju að sækja Ísland heim á ný í stórum stíl. Kínverjar hefðu nú náð tökum á kórónuveirufaraldrinum innanlands, efnahagurinn væri á hraðri uppleið og Kínverjar hefðu vel efni á að ferðast. Óvissa í öðrum löndum stæði frekar í vegi fyrir því en ástandið í Kína. Jafnframt þyrfti að koma á gagnkvæmri viðurkenningu stafrænna heilbrigðisvottorða og bæða viðmót, aðstöðu og þjónustu við kínverska ferðamenn. Gengi þetta allt eftir sagðist hann þess fullviss að Kínverjar sneru aftur til Íslands, mun fleiri en áður.

Málþingið var vel sótt og jafnframt streymt á Facebook.

Ísland þarf að verða sérstakur áfangastaður
Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnisstjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, fór í erindi sínu yfir ýmsar tölur um fjölda kínverskra ferðamanna hér á landi og útgjöld þeirra í samanburði við ferðalanga af öðru þjóðerni. Fjöldi þeirra hér á landi nítjánfaldaðist á árunum 2010 til 2019. Kínverjar stoppuðu hins vegar yfirleitt fremur stutt á Íslandi, enda væri dvöl þeirra hér oft liður í lengri Norðurlanda- eða Evrópuferð. Kínverskir ferðamenn virtust eyða minna á Íslandi en í öðrum löndum sem þeir sæktu heim. Þá virtist ákveðið skilningsleysi á þörfum markaðarins hjá ferðaþjónustuaðilum.

„Við þurfum að gera betur,“ sagði Ágúst. „Kínverjar eru stærstu kaupendur alþjóðlegrar ferðaþjónustu í heiminum og ég efast stórlega um að það muni minnka. Þeir munu ferðast meira og 11-13% þjóðarinnar eru með vegabréf. Hvað gerist þegar 25% verða komin með vegabréf? Þetta er hraðast vaxandi markaðssvæði Íslands.“ Ágúst Elvar sagði að til að bæta úr, þyrfti betri þekkingu á markaðnum, aukin þjónustugæði og að einhverju leyti fjárfestingu í innviðum. „Ísland þarf að verða sérstakur áfangastaður í huga kínverskra ferðamanna.“

Beint flug myndi gjörbreyta stöðunni
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, fór yfir ýmsar aðgerðir fyrirtækisins sem hugsaðar eru til að bæta upplifun kínverskra ferðamanna á Keflavíkurflugvelli, t.d. tilboð, auglýsingar og merkingar og upplýsingar á kínverskum samfélagsmiðlum. Hann ræddi talsvert um möguleika á beinu flugi til Kína og sagði að það myndi ekki aðeins efla ferðalög milli Íslands og Kína, heldur veita aðgang í gegnum Kína að öðrum asískum mörkuðum, sem jafnframt eru í hröðum vexti.

„Við teljum að með beinu flugi myndi markaðurinn umbyltast og gjöropnast strax. Það er aðeins einni klukkustund lengur verið að fljúga frá Peking til Keflavíkur en til Kaupmannahafnar þannig að það er verulegur tímasparnaður. Í okkar huga er beint flug ekki draumur heldur tímaspursmál og mun valda straumhvörfum á markaðnum,“ sagði Guðmundur Daði og bætti við að hægt ætti að vera að koma á beinu flugi innan tveggja ára.

Stöðugur vöxtur ef við stöndum okkur
Þorleifur Þór Jónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu, fjallaði um margvíslegar leiðir sem farnar hafa verið til að kynna Ísland í Kína. Hann fór einnig yfir mikilvægi þess að ferðaþjónustuaðilar á Íslandi miðluðu efni um þjónustu sína á kínversku. Einfalt væri að sækja í gagnabrunn hjá Íslandsstofu kínverskar þýðingar á einföldum leiðbeiningum og hugtökum í ferðaþjónustu og stórauka þannig þjónustuna við gestina.

Þorleifur vitnaði til spár um þróun alþjóðlegrar ferðaþjónustu sem gerir ráð fyrir að fyrri stöðu verði náð árið 2023, þegar tæplega 90 milljónir Kínverja muni ferðast til útlanda. „Svarið við spurningunni hvenær koma kínversku ferðamennirnir er 2023 – svona ef maður ætlar að hafa vaðið fyrir neðan sig,“ sagði Þorleifur. „Ef við stöndum okkur held ég að við getum séð nokkuð jafnan og stöðugan vöxt – en ef við klúðrum þessu, ef við aðlögum ekki þjónustuna, þá verða 80% Kínverja sem koma bara hingað sem þáttur í Norðurlandatúr.“

Glærur Ágústs Elvars
Glærur Guðmundar Daða
Glærur Þorleifs Þórs

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning