FA skrifaði undir kjarasamninga við helztu viðsemjendur sína innan Alþýðusambandsins. Samningarnir voru sambærilegir öðrum samningum á almenna vinnumarkaðnum, gilda til 2028 og hafa það að meginmarkmiði að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.
Í október var stigið mikilvægt skref þegar undirritaður var kjarasamningur við Visku stéttarfélag. Viska gætir hagsmuna háskólamenntaðra sérfræðinga, jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, og á aðild að BHM. Þetta er fyrsti kjarasamningurinn sem FA gerir við aðildarfélag BHM. Samningurinn tryggir betur réttindi félaga í Visku sem starfa hjá félagsmönnum FA og fjölgar jafnframt kostum starfsmanna aðildarfyrirtækja hvað varðar stéttarfélagsaðild. Á nýja árinu stendur til að kynna kjarasamninginn og þjónustu Visku enn betur fyrir félagsmönnum FA og starfsmönnum þeirra.