Ársskýrsla 2024

FA tók stóra slagi á árinu, m.a. um aukna samkeppni í skipaflutningum og spillingu og fúsk á Alþingi við breytingu á búvörulögum. Í þeim málum, eins og flestum öðrum viðfangsefnum ársins, var markmiðið að efla frjáls viðskipti og samkeppni, til hagsbóta fyrir félagsmenn og almenning á Íslandi. FA hélt fjölda funda, ráðstefna og námskeiða, eitt eða í samstarfi við aðra. Félagið var að vanda áberandi í fjölmiðlum og beitti sér sérstaklega fyrir því að setja hagsmunamál félagsmanna á dagskrá fyrir þingkosningarnar í lok nóvember. Félagsmenn hafa aldrei lýst meiri ánægju með starf félagsins. Smelltu á fyrirsagnirnar hér að neðan til að kynnast starfsemi FA á árinu 2024 betur.

Efst á baugi

14. febrúar 2025
14. febrúar 2025

Ummæli félagsmanna

Tilvitnanir úr þjónustukönnun

„FA er að standa sig betur heldur en gert hefur verið í mörg ár. Áfram veginn!“

„Ég er mjög ánægður með sýnileika og umræðuna sem FA hefur staðið fyrir“

„Margt gott við að auka þekkingu félagsmanna á því regluumhverfi sem við störfum í“

„Flott starf hjá ykkur“

„Fljót að svara, reynið alltaf að aðstoða og eruð aðgengileg“

„Fræðslan og baráttumál allt til fyrirmyndar“

„Starf gegn grímulausri sérhagsmunagæslu við samþykkt laga um undanþágu sláturleyfishafa frá samkeppnislögum“

„Gott upplýsingaflæði og mikill sýnileiki“

Önnur viðfangsefni ársins

Gagnrýni á kaupaukakerfi Skattsins
FA tók undir gagnrýni á kaupaukakerfi Skattsins, sem upplýst var um í byrjun ársins. Félagið benti fyrirtækjum, sem hefðu fengið á sig íþyngjandi ákvarðanir frá Skattinum um endurálagningu gjalda, á að skoða stöðu sína.
Óverjandi staða á heilbrigðistæknimarkaði
FA deildi á stöðuna á heilbrigðistæknimarkaði, þar sem Embætti landlæknis hefur komið Origo hf. í þá stöðu að vera beggja vegna borðs. Upplýsingakerfi heilbrigðiskerfisins eru í eigu og umsjá fyrirtækisins og Origo keppir jafnframt beint við einkarekin heilsutæknifyrirtæki, sem þurfa á aðgangi að kerfunum að halda.
Nýr lögfræðingur aðstoðar félagsmenn FA
Birta Sif Arnardóttir var ráðin lögfræðingur hjá FA í stað Guðnýjar Hjaltadóttur, sem fór til starfa hjá Samtökum iðnaðarins. Lögfræðiþjónustan er áfram mest notaða þjónusta FA og sú sem mest ánægja er með.
Keppinautum Kynnisferða verði hleypt inn í BSÍ
FA sendi borgarstjóranum í Reykjavík erindi og fór fram á fund til að ræða hvernig keppinautar fólksflutningafyrirtækisins Kynnisferða geti fengið aðstöðu í Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg (BSÍ), sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Fundurinn fékkst ekki, en borgin stofnaði starfshóp til að ræða málið.
Umbætur í vörudreifingu í miðborginni
Samstarf borgaryfirvalda og hagsmunaaðila í miðborginni, sem FA átti frumkvæði að fyrir nokkrum árum, hefur skilað miklum umbótum í vörudreifingu og betra sambýli fyrirtækja, íbúa og gesta í miðborginni.
Ríkisendurskoðun vanhæf
FA sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi þar sem hart var deilt á Ríkisendurskoðun. Stofnunin kom sér hjá því að svara spurningum Alþingis um framkvæmd og eftirlit með póstlögum, en í ljós kom að hún hafði veitt Íslandspósti ráðgjöf um hvernig mætti ná sem hæstum greiðslum úr sjóðum skattgreiðenda.
Gerræði ráðherra gagnrýnt
FA benti á að missætti innan þáverandi ríkisstjórnar væri byrjað að bitna á starfsumhverfi fyrirtækja í landinu. Þegar stjórnin gæti ekki komið sér saman um lagabreytingar, beittu einstakir ráðherrar gerræðislegum vinnubrögðum. Einn skipti sér af lögreglurannsókn á vefverslunum með áfengi, annar stóð í vegi fyrir því að löglegar hvalveiðar gætu farið fram með eðlilegum hætti.
Tekist á um gjaldskrá Sorpu
FA sendi Sorpu erindi vegna mikilla hækkana á gjaldskrá fyrir móttöku á matvælum í umbúðum, sem notuð eru til jarðgerðar. Félagið benti á að nú væri enginn fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki að taka umhverfis- og loftslagsvænni kostinn og skila útrunnum matvælum í umbúðum inn til jarðgerðar.
Skattabremsa á sveitarfélögin
Aðhald að fasteignasköttum sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði er árlegt verkefni hjá FA. Félagið hélt á lofti tillögum um að sett verði á nokkurs konar skattabremsa, þ.e. meðalhófsþak á breytingu fasteignaskatta hvort sem er til hækkunar eða lækkunar.
Rætt um efnahagshorfur við varaseðlabankastjóra
Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri mætti á félagsfund FA og ræddi efnahagshorfur. Líflegar umræður urðu á fundinum og gagnrýndu félagsmenn m.a. aðferðafræði Seðlabankans.
Fæðuklasinn kynntur fyrir félagsmönnum
FA efndi til gagnlegs kynningarfundar um Íslenska fæðuklasann fyrir félagsmenn í innflutningi og framleiðslu matvæla. Hugmyndir að ýmsum samstarfsverkefnum kviknuðu.
Áformum um kílómetragjald frestað
FA gagnrýndi áform stjórnvalda um álagningu kílómetragjalds á alla bíla og benti á að þau gætu valdið hækkun rekstrarkostnaðar vörudreifingarbifreiða og þar með hækkað flutningskostnað, sem skili sér í hærra vöruverði og meiri verðbólgu. Jafnframt væri dregið úr hvata til orkuskipta í vöruflutningum. Stjórnvöld settu málið á ís.
Fjárhæð nikótínskatts fari eftir skaðsemi
FA beitti sér fyrir því að nikótínskattur, sem lagður var á rafrettur og nikótínpúða, yrði lagður á eftir styrkleika nikótíns í vörunum. Alþingi kom að hluta til til móts við sjónarmið félagsins við afgreiðslu málsins.
Jafnlaunavottun verði valkvæð
FA lýsti yfir stuðningi við frumvarp á Alþingi um að jafnlaunavottun verði valkvæð, en ekki lagaskylda fyrir fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn. FA telur vottunarferlið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki og bendir á að væntanlegar séu Evrópureglur, sem tryggi að stærri fyrirtæki leggi fram sömu upplýsingar og jafnlaunastaðallinn kveður á um.
Breytt skattmat raskaði samkeppni
FA gagnrýndi breytingar á skattmati ríkisskattstjóra, sem urðu til þess að bankakort, sem voru vinsælar jólagjafir vinnustaða, voru skattlögð en ekki gjafakort í stóru verslanamiðstöðvarnar. Þetta varð til þess að færa viðskipti frá fyrirtækjum utan verslanamiðstöðvanna.

Umsagnir um þingmál og reglur

Félag atvinnurekenda gefur umsagnir og gerir athugasemdir við fjölmörg þingmál, drög að frumvörpum, áform um lagasetningu og reglugerðir. Umsagnirnar á árinu voru samtals 24.

Fréttir ársins af vef FA

21. desember 2024
21. desember 2024
14. desember 2024
27. nóvember 2024
26. nóvember 2024
19. nóvember 2024

Innskráning