Hreyfing á tollamálum

Eins og oft áður í nærri 95 ára sögu félagsins skipuðu tollamál einna stærstan sess í
málefnabaráttu félagsins á árinu. Meiri hreyfing var á þeim málum en oft áður og notaði FA
öll tækifæri sem gáfust til að benda á hvernig vinna mætti gegn verðbólgu með lækkun og
afnámi tolla.

FA vakti ítrekað athygli á því hvernig útboð á tollkvótum, heimildum til að flytja inn
takmarkað magn af búvörum án tolla, leiddu af sér sífellda hækkun útboðsgjaldsins sem
innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir að fá að flytja inn tollana. Þær hækkanir stuðla að
sjálfsögðu að hækkunum á vöruverði. FA sendi matvælaráðuneytinu erindi vegna þessara
mála og sendi Samkeppniseftirlitinu jafnframt ábendingu um það hvernig innlendir
kjötframleiðendur stunda að bjóða hátt í tollkvóta til að tryggja sér sem mest af honum,
hindra þannig samkeppni við sjálfa sig og stýra verðinu. Undir lok ársins hóf
Samkeppniseftirlitið formlega athugun á málinu.

Síðsumars var frá því greint að framleiðslu franskra kartaflna hefði verið hætt á Íslandi. FA
sendi stjórnvöldum erindi þar sem rökstutt var að 76% tollur á franskar kartöflur verndaði
þannig ekkert lengur, ekki einu sinni framleiðslu eina iðnfyrirtækisins sem til skamms tíma
framleiddi franskar – að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Málinu lyktaði þannig á Alþingi að
tollurinn var lækkaður úr 76% í 46%, sem teljast verður áfangasigur.

FA beitti sér einnig í málum sem varða misræmi á milli tollflokkunar íslenskra stjórnvalda og
tollayfirvalda í Evrópusambandinu. FA og Íslensk-evrópska verslunarráðið, sem FA rekur,
vöktu athygli stjórnvalda á því að mismunandi tollflokkun skapaði viðskiptahindranir á
Evrópska efnahagssvæðinu.

Félagið vakti ítrekað athygli á því hvernig ofurtollar hækka verð á blómum upp úr öllu valdi.
Hægt væri að lækka tolla verulega án þess að það hefði nein áhrif á þá afar takmörkuðu
blómaframleiðslu fáeinna fyrirtækja, sem fram fer á Íslandi. Hér reyndist þó á brattann að
sækja og tillögur félagsins hafa ekki náð eyrum stjórnvalda.

Fyrir tilstuðlan FA og Bændasamtakanna var framlengt til ársloka bráðabirgðaákvæði í
búvörulögum, sem rýmkar „glugga“ til tollfrjáls innflutnings á útiræktuðu grænmeti. Vonir
félagsins standa til að á árinu náist samningar við grænmetisbændur um auknar
beingreiðslur gegn niðurfellingu tollverndar.

Undir lok ársins gerði FA kjarasamninga við VR, Landssamband verslunarmanna og
Rafiðnaðarsambandið, þar sem gerð var sameiginleg bókun um að samtökin myndu í
sameiningu óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í
þágu neytenda.

Fréttir um málefnið

22. september 2022
9. september 2022
16. maí 2022

Innskráning